Verður áfram forstjóri Sögu

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson
Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson mbl.is/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Halldór Jóhannsson, stjórnarformaður Sögu fjárfestingarbanka, segir að málefni Þorvalds Lúðvíks Sigurjónssonar, forstjóra Sögu, hafi verið rædd á stjórnarfundi félagsins í gær. Var einróma samþykkt að Þorvaldur Lúðvík myndi gegna starfinu áfram en að leitað yrði til Fjármálaeftirlitsins varðandi hæfi hans.

Þorvaldur Lúðvík er einn þeirra sem hefur verið yfirheyrður í tengslum við rannsókn embættis sérstaks saksóknara á málum tengdum Glitni.

Þorvaldur Lúðvík segir að rannsókn sérstaks saksóknara snúi ekki að þætti Sögu í málinu. Enginn grunur sé uppi um að kaupsamningurinn milli Glitnis og Sögu hafi verið falsaður, eins og fram hefur komið í fjölmiðlum.

Hann staðfestir að hann hafi réttarstöðu sakbornings, en kveður það vera sér til verndar en ekki merki um að hann sé grunaður um afbrot.

Að sögn Halldórs var það niðurstaða stjórnar Sögu að á þessu stigi og í ljósi heildarhagsmuna bankans þá væri ekki ástæða til þess að Þorvaldur Lúðvík viki úr starfi.

Fjármálaeftirlitið hefur með mat á hæfi stjórnenda fjármálafyrirtækja að gera þannig að stjórn Sögu hefur óskað eftir því að FME fari yfir þetta mál og skoði það. Það er hvort Þorvaldur Lúðvík uppfylli þau skilyrði sem sett eru fyrir forstjóra fjármálafyrirtækis.

Halldór segir að jafnframt hafi verið leitað eftir því við sérstakan saksóknara að rannsókn á þeim hluta Glitnismálsins sem snýr að Stím verði hraðað eins og kostur er.

Frétt viðskiptablaðs Morgunblaðsins um málið í gær:

Saga Fjárfestingarbanki, sem áður hét Saga Capital, fékk aldrei fullnægjandi gögn um Stím hf. frá Glitni þrátt fyrir að eiga að hafa umsjón með félaginu samkvæmt samkomulagi við Glitni. Saga sendi Glitni ítrekaðar beiðnir, sem meðal annars koma fram í gögnum, sem Morgunblaðið hefur undir höndum, um að þessar upplýsingar yrðu afhentar og aðrir vankantar á Stím lagaðir. Þessum umleitunum Sögu var ekki sinnt og því sótti fjárfestingarbankinn það stíft að Glitnir losaði Sögu við skuldabréf, gefið út af Stími.

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Sögu, segir í samtali við Morgunblaðið að þau viðskipti hafi verið að öllu leyti eðlileg og að rannsókn sérstaks saksóknara snúi ekki að þætti Saga í málinu. Þá sé af og frá, eins og sagt hefur verið í fjölmiðlum, að grunur sé um að kaupsamningurinn hafi verið falsaður.

„Sú hugmynd kemur upp innan Glitnis vegna þess að afrit af samningnum fannst ekki innanhúss hjá þeim. Fjármálaeftirlit og saksóknari vita hins vegar og hafa vitað í nokkurn tíma að samningurinn, sem er til hjá okkur, var og er í lagi,“ segir Þorvaldur.

Samkvæmt upplýsingum frá Sögu var aðkoma bankans að Stími eftirfarandi: Glitnir hafi nálgast Sögu síðari hluta árs 2007 með fjárfestingarmöguleika í Stími. Upphaflega hafi staðið til að Stím ætti hlutabréf í Glitni og FL Group og yrði fjármagnað með lánsfé og eigin fé. Þá átti dreifður hópur fjárfesta að standa að baki félaginu.

Saga skráði sig fyrir hlutafé í Stími að andvirði 125 milljónum króna í nóvember 2007 og keypti í sama mánuði skuldabréf, útgefið af Stími, fyrir einn milljarð króna. Gjalddagi bréfsins var 19. nóvember 2008.

Glitnir óskaði eftir því að Saga hefði umsjón með félaginu, legði því til framkvæmdastjóra og veitti því heimilisfesti. Þá stóð til að Saga yrði eini bankinn í hluthafahópnum, en snemma árs 2008 kom í ljós að félagið var ekki í dreifðri eignaraðild eins og lagt var upp með.

Þorvaldur Lúðvík segir að fljótlega upp úr áramótum 2008 hafi hann farið að fá það á tilfinninguna að skuldabréf Stíms væri ekki eins góð fjárfesting og Glitnir hafði látið vera, en vegna þess að Saga fékk aldrei áðurnefndar upplýsingar gat hann ekki verið handviss.

Snemma árs 2008 lýsti Saga yfir áhuga við Glitni á að selja skuldabréfið á Stím, en það gerist hins vegar ekki fyrr en 18. ágúst 2008 að bréfið er selt fyrir milligöngu Glitnis. Átti greiðsla að fara fram þann 19. nóvember sama ár. Kaupandinn var fagfjárfestasjóður Glitnis, GLB FX. Að sögn Saga flokkast sjóðurinn sem viðurkenndur gagnaðili og var umboð sjóðsstjórans undirritað af meirihluta stjórnar Glitnis sjóða hf.

Leggur Saga á það áherslu að enginn vafi hafi verið uppi um tímasetningu viðskiptanna, hvorki hjá FME né hjá sérstökum saksóknara.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka