Fjáraukalög rædd í næstu viku

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra gerir ráð fyrir að fjáraukalög verði rædd í næstu viku. Endanleg þjóðhagsspá frá Hagstofunni sé væntanleg innan fárra daga. „Þá er í raun allt komið í hús sem þarf til að stilla af heildarrammann sem breytingatillögur við fjárlagafrumvarpið sjálft þurfa síðan að falla inn í.“

„Við höfum rætt málin við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og hann er farinn úr landi. Þannig að við erum búin að búa eins vel um það og við getum, að afmarka það svigrúm sem verður til breytinga,“ segir Steingrímur í samtali við mbl.is. Aðspurður segist hann ekki vilja nefna neinar tölur í þessu sambandi.

Gera breytingar en án þess að fara út af sporinu

„Ég held að menn átti sig á því að sá andi svífur yfir vötnum að við reynum að gera tilteknar breytingar eftir því sem við getum til að gera þetta auðveldara á sviði velferðarmálanna, einkum heilbrigðismálanna. En þó algjörlega innan þess ramma að fara ekki út af sporinu í stóru efnahagsáætluninni,“ segir hann.

Menn vinni markvisst að því að draga úr hallarekstri, komast í frumjöfnuð og síðan heildarjöfnuð innan ásættanlegs tíma. Hann tekur fram að það miði vel í þessum efnum.

„Staðreyndin er sú að útkoman, bæði á árinu 2009 og jafnvel sérstaklega á árinu 2010, stefnir í verða talsvert mikið betri en fjárlög og spár gerðu ráð fyrir. Það svigrúm kemur okkur auðvitað til góða. Ef við leggjum af stað inn í 2011 með samtals uppsafnaðan halla sem er eitthvað um 70 milljörðum minni en við höfðum reiknað með, þá munar um minna en það að þurfa ekki að greiða vexti af því næstu árin.“

Góð niðurstaða í Icesave-málinu hjálpar

Aðspurður segir hann að góð niðurstaða í Icesave-málinu muni hjálpa til. Hún muni einkum skipta sköpum varðandi mat umheimsins á Íslandi, stöðu okkar gagnvart alþjóðlegum mörkuðum og það að koma fjárfestingaverkefnum í gang.

„Það hefur verið jákvæð framvinda í málinu, en það er ekki í höfn. Það er ekki komið samkomulag, það á eftir að útkljá nokkur atriði. En framvindan hefur verið jákvæð og við höfum sagt að við séum hóflega bjartsýn á það að hægt væri að leiða málið til lykta með samningum á næstu vikum,“ segir Steingrímur.

Hann tekur fram að það sé ekki hægt að gefa sér neitt fyrirfram í þeim efnum.

„Við erum löngu hætt því í ljósi sögunnar í þessu erfiða máli. En horfurnar hafa heldur batnað hvað það snertir og aðstæðurnar hafa þróast okkur í hag. Það að sjálfssögðu léttir róðurinn að endurheimtur í búið hafa batnað, að greiðslur berist hraðar inn en áætlunin gerði ráð fyrir. Og það leggst líka með okkur að skammtímavextir hafa haldist mjög lágir. Lengur en reiknað var með.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert