Flokksráðið ræðir Evrópumál

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, ávarpaði fundinn í gær.
Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, ávarpaði fundinn í gær. mbl.is/Eggert

Ályktanir sem voru kynntar á flokksráðsfundi Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í gær verða afgreiddar í dag. Búast má við hörðum umræðum um Evrópumál. Fundurinn hófst í Hagaskóla í gær og var fundað fram á kvöld. Stefnt er að því að ljúka afgreiðslu ályktana og slíta fundinum í hádeginu í dag.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, ávarpaði fundarmenn í gær þar sem hann sagðist vera bjartsýnn á að sátt næðist um Evrópusambandsaðild. 

Ekki taka flokksmenn Vinstri grænna undir þá skoðun að sátt ríki um Evrópumál. Rúmlega sjötíu manns stóðu að ályktun í gærkvöldi um að flokksráðið krefðist þess skilyrðislaust að aðlögunarferlið yrði stöðvað og að hafnar yrðu eiginlegar samningaviðræður. 

„Aðlögunarferlið er mjög kostnaðarsamt og við sjáum engan tilgang í því að leggjast í rýnivinnu og setja upp stofnanir með tilheyrandi kostnaði og ferðum til Brussel,“ sagði Ásmundur Einar Daðason, þingmaður og einn flutningsmanna tillögunnar, í samtali við Morgunblaðið.

„Við lögðum þetta til sem sáttatillögu í Evrópumálum, en það hefur verið mikill urgur í flokksmönnum vegna þeirra,“ sagði hann ennfremur og bætti við að tillagan væri ekki einungis lögð fram í þeim tilgangi að sætta ólík sjónarmið innan VG, hún ætti  erindi við þjóðina alla.   

Steingrímur sagði m.a. í gær að afar erfið glíma væri framundan á næstu vikum og mánuðum. Í fjárlögunum væri verið að fást við sársaukafulla birtingarmynd hrunsins, sem menn gætu ekki skorast undan sem hann sagði að við gætum ekki skorast undan. 

„Við erum ekki að gera þetta að gamni okkar og sumar þessarar ákvarðana hafa verið gríðarlega erfiðar að taka. En ef við gerum þetta ekki, sköpum við langtímavandamál,“ sagði Steingrímur og benti á að ríkið greiddi um 200 miljónir á dag í vexti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert