Hagsmunum best borgið utan ESB

mbl.is/Eggert

Fjölmargar ályktanir voru samþykktar á flokksráðsfundi Vinstri grænna sem lauk fyrr í dag. Er eindregnum stuðningi m.a. lýst við ríkisstjórnarsamstarf flokksins og Samfylkingarinnar. Þá áréttar flokksráðið þá afstöðu VG að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins.

Segir í ályktuninni að flokksráð ítreki einnig mikilvægi þess að niðurstaða þess umsóknarferlis sem nú standi yfir verði lögð í dóm þjóðarinnar. Brýnt sé að í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu fari fram opin og lýðræðisleg umræða í samfélaginu um kosti og galla þeirrar niðurstöðu sem kosið verði um.

„Þar til þjóðin hefur tekið sína ákvörðun þarf að tryggja að ekki verði gerðar neinar breytingar á stjórnsýslunni eða íslenskum lögum í þeim eina tilgangi að laga íslenskt stjórnkerfi fyrirfram að reglum Evrópusambandsins. Ekki verði heldur tekið við styrkjum sem beinlínis eiga að undirbúa aðild. Flokksráðið hvetur til þess að svo fljótt sem unnt er verði í viðræðuferlinu látið reyna á meginhagsmuni Íslands eins og þeim er lýst í samþykkt Alþingis,“ segir ennfremur í ályktuninni sem var samþykkt í dag.

Þá var samþykkt ályktun um að niðurskurður í heilbrigðisþjónustu verði endurskoðaður.  Flokkurinn hafi verið stofnaður til að standa vörð um jöfnuð og velferð. Leggur flokksráð VG áherslu á að þessi stefnumarkmið birtist í verki í fjárlögum næsta árs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka