Haldið verði áfram á sömu vegferð

Frá flokksráðsfundinum. Árni Þór Sigurðsson er lengst til vinstri á …
Frá flokksráðsfundinum. Árni Þór Sigurðsson er lengst til vinstri á myndinni. mbl.is/Eggert

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri grænna, er ánægður með samþykkt flokksráðs VG um Evrópusambandsmálin. „Þetta þýðir að um 58% fundarmanna vilja halda áfram á þeirri vegferð sem við erum í og bera síðan niðurstöðuna undir þjóðina. Það er sú lína sem ég hef talað fyrir.“

Hann segir að flokkurinn hafi talað og niðurstaðan sé afdráttarlaus. Aðspurður segir hann að það sé góður samhljómur á meðal flokksmanna varðandi öll grundvallarmál flokksins. „Ég er mjög ánægður með þennan fund,“ segir Árni í samtali við mbl.is.

Í lok fundarins kom fram gagnrýni frá einum fundarmanni að í Vinstri grænum séu tveir flokkar. „Ég held að það sé alls ekki hægt að finna því stað. Að sjálfssögðu er tekist á um viðhorf. Vinstrihreyfingin - grænt framboð hefur stækkað mjög síðan hún var stofnuð. Úr 8-9 prósentum í 22% flokk. Og það auðvitað eðlilegt að það séu skiptar skoðanir um ýmis álitamál, en við erum öll meira og minna sammála um okkar grundvallarstefnu,“ segir Árni.

Spurður um efnahagsmálin segir hann: „Hér er samþykkt áskorun um það að endurskoða þau áfram sem eru í fjárlagafrumvarpinu um niðurskurð í heilbrigðismálum. Reyndar kemur það fram í fjárlagafrumvarpinu sjálfu að það skuli gert. Sú vinna er í gangi á vegum fjárlaganefndar og heilbrigðisnefndar Alþingis, og í samstarfi við stofnanirnar út um allt land. Og ég vænti þess að áður en mjög langt um líður þá liggi dagsins ljós tillögur þar að lútandi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert