„Ótvíræður stuðningur“

Frá setningu flokksráðsfunds VG í Hagaskóla í gær.
Frá setningu flokksráðsfunds VG í Hagaskóla í gær. mbl.is/Eggert

„Heildarniðurstaða fundarins er mjög sterk. Hún er ótvíræður stuðningur við forystu flokksins og áframhaldandi þátttöku okkar í ríkisstjórn. Og glímunni við þau verkefni sem við höfum tekið að okkur að fást við,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, að loknum flokksráðsfundi.

Verkefnið sé að koma Íslandi úr þeim erfiðleikum sem landið hefur staðið frammi fyrir. „Ég tel að flokkurinn sem slíkur, og þingflokkurinn og forystan standi mjög sterkt að vígi með umboð frá þessum fundi.“

Flokksráðsfundur VG hófst í gær í Hagaskóla og var honum slitið um kl. 12:30 í dag, að loknum afgreiðslum á ályktunum sem voru fjölmargar. Þar var m.a. felld sú tillaga að stöðva aðildarviðræður við Evrópusambandi, með 38 atkvæðum gegn 28.

Aðspurður um ESB-málið segir Steingrímur: „Þar var í meginatriðum samþykkt tillaga sem yfir 40 flokksráðsfulltrúar lögðu fram. Samþætt tillaga um stuðning við ríkisstjórnarsamstarfið, við forystu flokksins og við tilteknar áherslur í sambandi við málsmeðferðina varðandi ESB. Og ég er mjög sáttur við þá niðurstöðu,“ segir hann.

Vilja tryggja ákveðna hluti í viðræðum við ESB

„Fundurinn sendi líka skýr skilaboð til okkar um það að við viljum tryggja ákveðna hluti. Það er alveg ljóst að við munum í krafti þess beita okkur fyrir því að það verði ekki um neinar fyrirfram aðlögun að ræða, og að það verði settar skorður við því hvernig fjármunir eru notaðir inn í þessa umræðu. Þannig að við höfum líka verk að vinna í því og nú tökum við það upp og fylgjum því fastar eftir en ella, með það umboð sem við höfum fengið hér frá fundinum.“

Á fundinum var fjallað um efnahagsmálin, væntanleg niðurskurð og samdrátt. „Það var hvatt til þess að við gerðum allt sem við gætum til að milda niðurskurðinn í velferðarmálunum, sérstaklega heilbrigðismálunum, og um það er góð sátt hér. Það er það sem við vildum gera, en þó með ábyrgum hætti. Þó innan þess ramma að við förum ekki út af sporinu í glímu okkar við að ná tökum á hallarekstri ríkissjóðs,“ segir hann og bætir við að hann sé mjög sáttur við þessa niðurstöðu, bæði sem fjármálaráðherra og formaður VG.

  „Ég var mjög ánægður með fundinn. Þetta var fundur sem var alveg í besta anda Vinstri grænna. Hreinskiptnar umræður og menn greiddu óhikað atkvæði þegar menn voru ekki alveg sammála um afgreiðslur eða málsmeðferð. Og þannig á það bara að vera.“ 

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG.
Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka