Setur ESB-aðlögunarferlið í uppnám

Frá flokksráðsfundinum í Hagaskóla.
Frá flokksráðsfundinum í Hagaskóla. mbl.is/Eggert

Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Vinstri grænna, segir að samþykkt flokksráðs VG í Evrópumálum hafi sett ESB-aðlögunarferlið í uppnám. „Báðar þær tillögur sem voru samþykktar hér fela það í sér að stoppa algerlega aðlögun að Evrópusambandinu og allt fjárstreymi frá ESB inn í þá aðlögun og kynningar- og áróðursstarfsemi.“

Hann segir að yfirlýsingar ESB í síðustu viku sýni fram á að það sé ekki til nein svokölluð „norsk leið“, þ.e. viðræðuleið. Aðeins sé um leið aðlögunar að ræða, sem verði að eiga sér stað á meðan viðræður standi yfir.

„Það er mikið atriði að fá það samþykkt hér að við leggjumst alfarið gegn slíkri aðlögun. Við leggjumst alfarið gegn fjárstreymi inn í slíka aðlögun, og það setur umsóknarferlið í uppnám,“ segir Ásmundur Einar í samtali við mbl.is.


„Ég hef áhyggjur af því að menn hafi í rauninni verið að hafna ferlinu sem er nú í gangi, en á móti kemur að það er enginn mótleikur um það hvað menn vilja í staðinn.“

Hann tekur sem dæmi, máli sínu til stuðnings, að ESB geri þá kröfu að íslensk stjórnvöld setji upp greiðslustofnun í landbúnaði. Sú stofnun hafi umsjón með öllu styrkjakerfinu eins og það sé uppbyggt í Evrópusambandinu. Það sé hins vegar byggt upp með öðrum hætti en hér á landi.

„ESB talar um að þessi stofnun verði að vera komin upp áður en að þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram. Þeir embættismenn sem hafa komið fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd hafa sagt, að ef það verði ekki hafinn undirbúningur að setja þessa stofnun á fót þá muni aðildarferlið stranda. Ef við tökum ekki fjármagn inn í það þá muni aðildarferlið líka stranda. Ef maður skoðar framvinduskýrslu Íslands, sem var birt nýverið, þá kemur fram að Evrópusambandið lýsti áhyggjum yfir því að þetta gengi ekki nógu hratt fyrir sig,“ segir Ásmundur Einar. 

Ásmundur Einar Daðason.
Ásmundur Einar Daðason. mbl.is/Kristinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert