Ef satt reynist að nýtt Icesave-samkomulag við Breta og Hollendinga muni kosta ríkið um 60 milljarða króna mun gjaldeyririnn, sem nota verður til afborgana, jafnast á við um sjöfaldan árlegan innflutning Íslendinga á fólksbifreiðum, miðað við tölur frá í fyrra.
Í fréttaskýringu um kostnað af hugsanlegu Icesave-samkomulagi í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að greiðslubyrði ríkisins af erlendum lánum sé nú þegar mjög þung og miðað við greiðsluáætlun verður gjaldeyrisforðinn uppurinn árið 2015, árið sem greiðslur á Icesave-skuldinni myndu hefjast samkvæmt gamla samkomulaginu.