Alvarleg líkamsárás

mbl.is/Jakob Fannar

Alvarleg líkamsárás var framin í Reykjavík í nótt þegar þrír karlmenn réðust á einn mann fyrir utan skemmtistað í miðborginni. Árásarmennirnir slógu manninn með þeim afleiðingum að hann féll í götuna. Þeir spörkuðu og slógu svo ítrekað í höfuð mannsins. Árásarmennirnir hafa verið handteknir.

Að sögn lögreglu var maðurinn fluttur á slysadeild en ekki er vitað hversu alvarleg meiðsl hans eru. Árásarmennirnir verða yfirheyrðir í dag.

Þá var framin líkamsárás á Hlemmi í gærkvöldi þegar nokkrir einstaklingar réðust þar á par. Að sögn lögreglu var parið flutt á slysadeild með nokkra áverka. Lögreglan handtók þrjá árásarmenn með því að hlaupa þá uppi, en þeir reyndu allir að flýja af vettvangi. Þeir gista nú fangageymslur og bíða yfirheyrslu. 

Þá segir lögregla að fjögur líkamsárásarmál til viðbótar hafi komið upp í nótt. Þær árásir hafi verið minniháttar.

Mikið annríki - fangageymslur fullar

Mjög mikið annríki var hjá lögreglu í nótt en um 100 verkefni af ýmsum toga komu á borð hennar frá miðnætti til klukkan 6:30 í morgun. Flest verkefnin tengjast skemmtanahaldi, segir lögregla.

Eru fangageymslur á höfuðborgarsvæðinu svo til fullar en þar gistir fólk af ýmsu ástæðum.

Varðstjóri segir að fjögur fíkniefnamál hafi komið upp í miðborginni.

Þá hafi tveir verið handteknir vegna gruns um  að hafa ekið undir áhrifum áfengis og tveir aðrir vegna gruns um að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna.

Ungur ökufantur

Þá var ungur ökumaður stöðvaður um kl. fjögur í nótt á Sæbraut þar sem hann ók á 116 km hraða, en þar er hámarkshraði 60 km á klst. Ökumaðurinn var búinn að vera með ökuskírteini í einn dag. Var foreldrum ökumannsins gert viðvart um afskipti lögreglu.


Fleira áhugavert
Fleira áhugavert