Átelur vinnubrögð landsdóms

Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra.
Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. mbl.is/Golli

Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, segir að í stað svars við beiðni sinni til forseta landsdóms um skipan verjanda hafi hann fengið afrit af bréfi til saksóknara Alþingis. Hann telur það vítaverð vinnubrögð að forseti landsdóms undirbúi breytingar á lögum um landsdóm.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Geir sendi frá sér nú síðdegis. Hún er tvíþætt. Í fyrrihlutanum rekur hann kröfu sína frá 15. nóvember um að sér yrði skipaður verjandi án frekari tafa. Í því sambandi vísaði Geir í 15. grein laga um landsdóm.

Hann segir að í stað þess að forseti landsdóms svaraði sér beint hafi honum borist afrit af bréfi forseta landsdóms til saksóknara Alþingis. Þar er óskað umsagnar um kröfu Geirs um skipun verjanda. Beðið er um að afstaða saksóknara berist landsdómi, en ekki forseta landsdóms.

„Ég tel þetta með öllu óskiljanlegt og fyrir þessu er hvergi að finna lagastoð. Saksóknara er ekki ætlað að veita umsögn um skipun verjanda og hefur ekkert með það mál að gera. Ég mun því mótmæla því harðlega við forseta landsdóms að afgreiðsla þessa einfalda atriðis sé enn tafin með þessum hætti,“ segir Geir í yfirlýsingunni.

Þá bendir Geir á að fram hafi komið að skrifstofustjóri Hæstaréttar, sem einnig er ritari landsdóms, hafi sagt að lagaleg óvissa ríki um hvort Geir hafi á þessu stigi formlega stöðu ákærðs manns. 

„Í því sambandi bendi ég á að í bréfi forseta landsdóms til mín dags. 30. september er vikið að mér sem hinum ákærða og það orð er notað hvarvetna í lögunum um landsdóm. Léki hins vegar einhver vafi á þessu atriði, sem ekki verður fallist á, bæri að sjálfsögðu að túlka hann sakborningi í vil og fara að ósk minni um skipun verjanda.“

Forseti landsdóms undirbjó breytingar á lögum um dóminn

Síðari kafli yfirlýsingarinnar fjallar um að dóms- og mannréttindaráðherra hafi í síðustu viku lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingar á lögum um landsdóm. Frumvarpið sé byggt á skriflegum tillögum forseta landsdóms frá 21. október sl.

„Forseti dómsins hefur með öðrum orðum undirbúið breytingar á lagaumgjörðinni um það mál sem Alþingi hefur höfðað gegn mér eftir að ákvörðun um málshöfðun lá fyrir. Síðan hefur forsetinn sent þær tillögur til ráðherra sem sjálfur greiddi atkvæði með málshöfðun gegn mér og hefur, eins og hans pólitísku samherjar, mikla pólitíska hagsmuni af því að ég verði sakfelldur.

Þetta er með ólíkindum. Ég tel þessi vinnubrögð vítaverð og skiptir í því sambandi ekki máli þótt sum þau atriði sem lagt er til að verði breytt geti talist minni háttar. Alþingi var vel kunnugt um að einhverjir annmarkar væru á lagaumgjörðinni um landsdóm þegar ákveðið var að höfða málið, en lögin voru þó talin nothæf. Breytingar á lögunum nú, eftir að ákvörðun um ákæru hefur verið tekin, fá ekki staðist, a.m.k. ekki án þess að leitað sé samþykkis allra málsaðila. Raunar væri fróðlegt að vita hvort leitað var munnlegrar eða skriflegrar umsagnar saksóknara Alþingis á téðum tillögum um breytingar á lögunum“ skrifar Geir m.a. í yfirlýsingunni.

Hann kveðst telja að eðlilegt hefði verð að ræða við sækjanda og skipaðan verjanda um breytingar á lögunum og leita síðan samstöðu á Alþingi undir stjórn forseta þingsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert