Líkjast kommúnistaflokkunum

LIlja Mósesdóttir.
LIlja Mósesdóttir. mbl.is/Kristinn

Lilja Mósesdóttir alþingismaður kveðst vera mjög hugsandi um sína stöðu eftir flokksráðsfund VG. Hún segir að það hafi verið sér mikil vonbrigði að fundurinn skyldi ekki samþykkja tillögu hennar og Ásmundar Einars Daðasonar um að taka undir orð forsætisráðherra um endurskoðun ramma fjárlaga.

Lilja skrifaði í morgun á Facebook síðu sína og vekur færslan ýmsar spurningar. Hún skrifar:

„Stjórnarflokkar líkjast meir og meir gömlu kommunistaflokkunum eftir því sem gagnrýnin á forystuna eykst bæði innan og utan þeirra. Fundir verða að hátíðarsamkomum til að hylla leiðtogana og hjörðin er rekin á bás til að klappa og greiða atkvæði í samræmi við vilja leiðtoganna. Kjósendur horfa agndofa á leiksýninguna og öskra á uppstokkun en ekkert mun gerast fyrr en boðað verður til kosninga.“

Lilja var spurð við hvað hún ætti við með því að líkja stjórnarflokkum við gömlu kommúnistaflokkana?

„Þú verður að athuga að ég kem úr Kvennalistanum. Ég er að upplifa „flokk“ eftir að hafa verið í meiri grasrótarhreyfingu þar sem reglulega var skipt um þingmenn og foringja. Mér brá svolítið á föstudagskvöldið þegar allir flokksráðsmenn stóðu upp og klöppuðu mikið, lengi og ákaft, eftir ræðu foringjans,“ sagði Lilja.

Hún sagði að af fréttum að dæma hafi svipað gerst á fundi hjá Samfylkingunni og mikið verið klappað eftir ræðu formannsins. Lilja telur að flokksmenn, ekki síður í VG en öðrum flokkum, þurfi að velta fyrir sér hvort ekki þurfi meira lýðræði innan þeirra og að skipta um formenn með reglulegu millibili. Það sé í mesta lagi rætt um að skipta um þingmenn eftir tvö kjörtímabil, en ekkert um formennina.

En endurspeglar Facebook-færslan vonbrigði hennar með Vinstrihreyfinguna grænt framboð?

„Þetta voru vonbrigðin, þetta klapp. Ég hélt að þetta væri meiri grasrótarhreyfing og jafnvel þótt þau væru hrifin af foringjanum þá myndu þau ekki gera þetta,“ sagði Lilja.

Hún sagði að mikið hafi verið tekist á um tillögu hennar og Ásmundar Einars Daðasonar um að flokksráðsfundurinn ályktaði að endurskoða ætti ramma fjárlaga. Lilja taldi eðlilegt að fundurinn ályktaði í þá veru til að taka undir með Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra um að fara ætti vægar í niðurskurðinn.

„Steingrímur [J. Sigfússon] lagðist gegn því og málinu var vísað í þingflokkinn. Það voru mikil vonbrigði að flokksráðsfundurinn vildi ekki taka undir með Jóhönnu Sigurðardóttur,“ sagði Lilja.

Hún kveðst hafa verið þeirrar skoðunar að boða ætti til kosninga og hreinsa út, allt frá því að atkvæði voru greidd um ráðherraábyrgðina á Alþingi.  Það sé eðlilegt í ljósi þess að rannsóknarskýrsla Alþingis sé komin út og þar komi fram ýmsar upplýsingar sem kjósendur hefðu þurft að hafa fyrir síðustu kosningar til að meta fólk og flokka.

En er Lilja á leið út úr VG?

„Ég tel að ég hafi verið kosin til ákveðinna verka, meðal annars að tryggja vinstrimennsku og ekki síst að standa vörð um velferðarkerfið og störfin í því. Ég hef efasemdir um að við séum að ná því með þessu fjárlagafrumvarpi,“ sagði Lilja.

Hún segist ekki hafa tekið neina ákvörðun um að segja skilið við þingflokk VG. „En ég er mjög hugsi eftir þennan flokksráðsfund, sérstaklega að hann skyldi ekki geta tekið undir með Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra,“ sagði Lilja.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert