Misskilningur að umræðan snúist um persónulegan ríg

Ögmundur Jónasson, dóms- og mannréttindaráðherra.
Ögmundur Jónasson, dóms- og mannréttindaráðherra. mbl.is/Kristinn

Ögmundur Jónasson, dóms- og mannréttindaráðherra, segir tilraunir til að persónugera umræðu í kjölfar flokksráðsfundar Vinstri grænna, sem lauk í gær, séu til þess eins fallnar drepa mikilvægum málefnalegum umæðum og ágreiningi  á dreif.

„Slík viðhorf stuðla ekki að opinni og frjálsri umræðu sem ætti þó að vera okkur öllum keppikefli,“ skrifar Ögmundur á bloggsíðu sína, þar sem hann fjallar um helstu niðurstöður fundarins.

Frá sínum sjónarhóli séð haldi sumir því fram að umræðan snúist ekki um málefni heldur um persónulegan ríg manna í milli. „Þeir sem þannig skrifa þekkja ekki persónur og leikendur í VG eins og sagt var á Gufunni í gamla daga,“ segir Ögmundur.

Þá fjallar hann um ályktanir fundarins, m.a. ályktun um Evrópusambandið. Hann segir að hvatning flokksráðsins sé mjög í þeim anda sem hann hafi talað fyrir, og vísar hann til þess sem segir í ályktuninni: „til þess að svo fljótt sem unnt er verði í viðræðuferlinu látið reyna á meginhagsmuni Íslands eins og þeim er lýst í samþykkt Alþingis."

Að flýta ferlinu, láta reyna á meginálitamálin, yfirráð yfir sjávarauðlindinni, landbúnaði og grunnatriðum í sjálfsákvörðunarrétti.

„Þennan skilning má lesa út úr framantilvitnuðu auk þess sem talað er um að stöðva aðlögunarferlið og fjárframlög til að smyrja samningsferlið og þar með viljann til aðlögunar,“ skrifar Ögmundur.

Varðandi ályktun gegn niðurskurði í heilbrigðiskerfinu, segir Ögmundur að meirihluti flokksráðs telji að unnt sé að gera þetta án þess að hnika til fjárlagarammanum. Hins vegar hafi ekki allir verið á eitt sáttir um að þetta væri raunsætt mat, þar á meðal flutningsmennirnir Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingflokksformaður, og Karólína Einarsdóttir, formaður Kópavogsfélags VG .

„Öllu máli skiptir þó að krafan stendur á róttæka endurskoðun,“ segir Ögmundur.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert