Samþykkt var á síðasta stjórnar8 fundi Sorpu bs. að loka endurvinnslustöð byggðasamlagsins á Kjalarnesi. Þetta eru Kjalnesingar afar ósáttir við og ætla að berjast fyrir stöð sinni með öllum tiltækum ráðum. Framkvæmdastjóri Sorpu segir að um hagræðingaraðgerð sé að ræða. Stöðin sé lítið notuð á sama tíma og gerð er krafa um hagræðingu.
Með lokun endurvinnslustöðvarinnar á Kjalarnesi þurfa Kjalnesingar að notast við þá sem staðsett er í Mosfellsbæ. Ásgeir Harðarson, formaður íbúasamtaka Kjalarness, segir það ekki boðlegt. „Reykjavík nær að Kiðafellsá og það að ætla fólki að fara frá Kiðafellsá og niður í Mosfellsbæ með ruslið sitt er allt önnur þjónusta en aðrir íbúar höfuðborgarsvæðisins þurfa að búa við."
Sumarhúsaeigendur í Kjós og við Meðalfellsvatn nota stöðina mikið, að sögn Ásgeirs. Hins vegar bendir Björn H. Halldórsson, framkvæmdastjóri Sorpu, á að í síðasta mánuði hafi aðeins komið inn 562 kg á endurvinnslustöðina á Kjalarnesi. Samtals falla hins vegar til um þrjátíu þúsund tonn á ári á endurvinnslustöðvum Sorpu.
Björn segist skilja að íbúar séu ekki ánægðir, enda vanir þessari þjónustu. Hann bendir þó á að stöðin sé aðeins opin þrjá daga í viku, og ekki sé svo ýkja langt að fara til Mosfellsbæjar þar sem opið er alla daga. „Aðrir íbúar á höfuðborgarsvæðinu þurfa um lengri veg að fara," segir Björn. „Þegar stöð okkar í Garðabæ var lokað breyttist vegalengdin fyrir Álftnesinga mikið og þeir fara nú sennilega mest í endurvinnslustöðina við Dalveg í Kópavogi."
Hvað er þá næst?
Með lokun endurvinnslustöðvarinnar sparast nokkrar milljónir, m.a. í launakostnað en tveimur starfsmönnum verður sagt upp störfum.
Ásgeir segir starfsmannamálin einmitt stóran þátt í málinu. „Menn eru að berjast fyrir því að halda störfum hérna og þó að þetta sé ekki endilega mikil vinna við stöðina hefur lengi verið mesta atvinnuleysi á Kjalarnesi þegar miðað er við hverfi borgarinnar. Eðlilega berst maður því fyrir þessum störfum. Ef þessi stöð er gefin eftir hvað er þá næst, áhaldahúsið eða skólarnir? Eru þeir sem búa hérna annar þjóðflokkur sem ekki þarf sömu þjónustu og aðrir?"
Tillaga um lokun stöðvarinnar kom einnig fram á síðasta ári en þá var hætt við. Ásgeir segir að stjórn Sorpu hafi komist að raun um að stöðin kosti lítið í rekstri en veiti gríðarlega góða þjónustu. Þetta sé því ekki sú hagræðing sem skipti sköpum.
Þó svo að stjórn Sorpu hafi samþykkt að loka þarf enn samþykki allra aðildarsveitarfélaga. Erindi þess efnis hafa verið send út en ekki fengust upplýsingar um hvar þau eru stödd í ferlinu. Ekki liggur fyrir hvenær stöðinni verður lokað fyrr en samþykkið liggur fyrir.