Einar Kristinn Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi ráðherra, segir að niðurstaða flokksráðsfundar Vinstri grænna, sem lauk í gær, sé skýr. Flokkurinn sé Evrópusambands-flokkur, sem styðji aðildarumsóknina og vilji halda vinnu við hana áfram.
Þetta skrifar þingmaðurinn á bloggsíðu sína. Þar segir hann flokkinn hafa verið eins og kamelljón í málinu og stöðugt skipt um yfirbragð.
„Með aðild sinni að ríkisstjórn gekkst hann undir það jarðarmen að standa að aðildarumsókn að ESB, þvert ofan í flokkssamþykktir sínar. En til þess að friðþægja öskureiða stuðningsmenn sína, sem ekki vildu una þessum svikum, var hópi þingmanna gefinn laus taumurinn. Þess var þó alltaf vel gætt að hópurinn yrði aldrei stærri en svo að það ógnaði því að Samfylkingin fengi því framgengt að sótt yrði um aðild,“ skrifar Einar.