Lögreglan á Húsavík hefur ítrekað fengið tilkynningar um rjúpnaveiðimenn að veiðum í óleyfi í sumarbústaðalandi í Aðaldalshrauni. Búið er að leggja fram kæru í a.m.k. einu máli. Enn var kvartað undan ágangi rjúpnaskytta innan um sumarbústaðina í morgun og fór lögreglan á staðinn.
Grunur leikur á að menn hafi jafnvel skotið út um bílglugga og þverbrotið þannig reglur um meðferð skotvopna. Sumarbústaðalandið er eignarland og er stranglega bannað að skjóta þar. Landeigendur hafa almennt bannað skotveiðar í Aðaldalshrauni, að sögn lögreglunnar.
Lögreglan hefur fengið hinar undarlegustu viðbárur frá veiðimönnum sem gómaðir voru „í landhelgi“. Menn sem gómaðir voru í leyfisleysi í sumarbústaðalandinu kváðust hafa fengið leyfi landeiganda eins í nágrenninu.
Þeir sögðu að það hafi verið svo mikið af mönnum í óleyfi á landinu hans að þeir færðu sig annað - og voru þá komnir inn í sumarhúsabyggð og voru að veiðum skammt frá sumarbústöðunum.