Talið er að Vegagerðin hafi varið 30 milljónum króna til að lagfæra vegi vegna eldgosanna á Fimmvörðuhálsi og í Eyjafjallajökli. Kostnaður við önnur verkefni, svo sem vegna þátttöku í sáningum til að hefta öskufok á Skógar- og Sólheimasandi og öskuhreinsun af vegum, er um 15 milljónir króna.
Þá er áætlaður heildarkostnaður Vegagerðarinnar vegna viðhalds og endurbyggingar varnargarða og fyrirhleðslna við Markarfljót og ár undir Eyjafjöllum, eftir flóðin af völdum eldgossins í Eyjafjallajökli, um 100 milljónir.
Hluti varnargarðakerfisins við
þessar ár er samvinnuverkefni Vegagerðarinnar og Landgræðslu ríkisins
og hefur Landgræðslan einnig lagt
út fyrir töluverðum kostnaði vegna þessa en Vegagerðin hefur ekki
upplýsingar um þær
upphæðir.
Þetta kemur fram í svörum samgönguráðherra við fyrirspurnum Arndísar Soffíu Sigurðardóttur, þingmanns VG, á Alþingi.
Kostnaður Vegagerðarinnar við vegagerð er fyrst og fremst fólginn í endurbyggingu Hringvegarins við Markarfljót og í minna mæli á Fljótshlíðarvegi, Þórsmerkurvegi og Raufarfellsvegi. Auk þess hefur Vegagerðin veitt Rangárþingi eystra styrk til endurbóta á vegslóða um Fimmvörðuháls.
Fram kemur í svarinu, að lagfæringum á vegum umhverfis Markarfljót sé lokið en unnið sé að áætlunum um hugsanlega hækkun Hringvegarins við Svaðbælisá ásamt endurbyggingu, færslu og hækkun brúarinnar og breytingum á farvegi árinnar. Gera megi ráð fyrir að kostnaður vegna þessa geti numið á annað hundrað milljóna króna að teknu tilliti til breytinga á farvegum og varnargörðum.
Þeir varnargarðar sem urðu fyrir mestum skemmdum af völdum flóða í kjölfar eldgossins eru varnargarðar við Markarfljót, svo sem við Þórólfsfell, við gömlu Markarfljótsbrúna og Litlu-Dímon, auk garða við nýju Markarfljótsbrúna. Einnig hefur aukinn framburður valdið vandræðum við Krossá í Þórsmörk og er unnið að fyrirhleðslum þar til að sporna við frekara landbroti og skemmdum á vegum, að sögn vegagerðarinnar. Mikil uppbygging hefur einnig farið fram á varnargörðum við Svaðbælisá, auk þess sem stöðugt er unnið að uppmokstri á efni úr farvegi árinnar.
Ekki hefur verið tekin ákvörðun um frekari styrkingu varnargarða en gerð hefur verið úttekt á þeim varnargörðum við Markarfljót þar sem tæpast stóð að vatn færi yfir garðana og gerð tillaga um hækkun og styrkingu þeirra. Þessir garðar eru: leiðigarðar við brú á Hringvegi, nýr varnargarður austan Markarfljótsbrúar (við Kverkina), Dofri, Fauskagarður, Hallshólmagarður, Álagarður, Stóru- Dímonargarður, Litlu Dímonargarður neðan Litlu-Dímonar, Bakvörður austan Markarfljótsbrúar og flutningur á Merkurhólagarði.
Áætlaður kostnaður Vegagerðarinnar við þessi verkefni er um 90 milljónir en gert er ráð
fyrir hlutdeild frá Landgræðslu ríkisins upp á um 20 milljónir króna.