Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði á Alþingi í dag að stjórnvöld teldu sig hafa fullvissu um að ekki þurfi að vera um að ræða fyrirfram aðlögun Íslendinga að Evrópusambandinu.
Bjarni Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði Steingrím um niðurstöður flokksráðsfundar Vinstri grænna um helgina. Sagði Bjarni, að einn stjórnarliða, sem sat fundinn, hefði túlkað niðurstöðu fundarins þannig, að hún kallaði á nýja nálgun í öllu viðræðuferlinu við Evrópusambandið.
Þá spurði Bjarni hvort það væri undir því komið hvor stjórnarflokkurinn stýrði einstökum ráðuneytum, hvort viðkomandi ráðuneyti taki við svonefndum IPA styrkjum frá ESB, sem ætlað væri að undirbúa stjórnsýsluna hér á landi undir ESB-aðild.
Steingrímur sagði, að það væri Íslendingum algerlega í sjálfs vald sett hvort og þá hvenær og hvernig tekið væri við umræddum styrkjum og til hvaða verkefna.
Bjarni sagði, að Evrópusambandið gengi út frá því, að umsóknarríki hefðu áhuga á að komast í sambandið og ekki væri gert ráð fyrir því fyrirkomulagi, sem íslenska ríkisstjórnin byði upp á, að að menn sækist eftir aðild án þess að neitt sé með því meint, eins og skýrt komi fram í ályktunum flokksráðsfundar VG.
Steingrímur sagði, að þótt ESB gangi út frá því að umsóknarríki vilji komast í sambandið geri það sér væntanlega grein fyrir því að það sé háð þeim samningum, sem nást um aðild.
Þá vísaði til þess, að norsk minnihlutastjórn hefði á sínum tíma sótt um
aðild að Evrópusambandinu og það án þess að samstaða væri um umsóknina
innan stjórnarflokkanna.