Fullkomin þyrla í heimsókn

Danski herinn lét útbúa EH101 þyrlurnar sérstaklega fyrir sínar þarfir.
Danski herinn lét útbúa EH101 þyrlurnar sérstaklega fyrir sínar þarfir. Ljósmynd/Augusta Westland

Agusta Westland EH101, þyrla danska flughersins, er væntanleg í heimsókn til Landhelgisgæslunnar á morgun. Hún er talin vera ein fullkomnasta þyrlan sem nú er í notkun á Norður-Atlantshafi, að sögn Landhelgisgæslunnar.

„Þyrlan er á æfingaferðalagi dönsku þyrluflugdeildarinnar  ESK722
sem hófst þann 15. nóvember í Norður-Noregi. Leiðangurinn ber vinnuheitið NAVINORD (Long-Range Navigation Exercise) og hefur áhöfn þyrlunnar verið við æfingar ásamt samstarfsaðilum nágrannaþjóðanna.

Næstkomandi miðvikudag er áætluð æfing með stjórnstöð, flugdeild og varðskipi Landhelgisgæslunnar á Faxaflóa. Að æfingu lokinni heldur þyrlan EH101 áfram för sinni en æfingaferðinni lýkur á Grænlandi þann 26. nóvember.

Fyrsta þyrlan af tegundinni EH101 var afhent danska flughernum árið 2005. Er tegundin afar öflug  og nútímaleg, búin ýmsum búnaði o.s.frv. sem margur hver hefur ekki verið til staðar í eldri tegundum af björgunarþyrlum.

Danski flugherinn á 14 þyrlur sömu tegundar, 8 þeirra eru notaðar við
leitar- og björgunarstörf en sex þyrlur eru notaðar m.a. til flutninga á
starfsmönnum danska hersins.  Þessar tvær útgáfur eru eins í grunninn en innréttingar og tæknilegar útfærslur ólíkar.

Björgunarþyrlurnar sem notaðar eru til leitar- og björgunarverkefna á sjó og landi, eru útbúnar sem fljúgandi bráðamóttökur. Eru þær, eins og Landhelgisgæslan með lækni í áhöfn sem tryggir sjúklingum aðstoð eins fljótt og mögulegt er.

Þyrlan Agusta Westland  EH101 er um 20 metrar að lengd  og getur borið allt að 15.600 kg. Til samanburðar má nefna að Líf, þyrla Landhelgisgæslunnar er um 16 metrar að lengd og getur borið allt að 8.600 kg. Þyrlan EH101 er búin þremur mótorum sem hefur mikil áhrif á hversu hátt þyrlan getur flogið, sem og snerpu hennar.

Getur hún auk þess flogið í ísingu eins og þyrlur Landhelgisgæslunnar. Þyrla danska flughersins er búin rampi að aftan sem auðveldar göngu til og frá borði, bæði þegar um að ræða sjúklinga á börum og fjölda farþega,“ segir m.a. í tilkynningu Landhelgisgæslunnar.

Kynningarmyndband danska flughersins um EH101

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert