Þrír starfsmenn Arctic Trucks náðu á Suðurpólinn í gær, fyrstir leiðangra á þessu tímabili. Þeir munu yfirgefa pólinn annað kvöld. Eins og nærri má geta er fimbulkuldi á pólnum. Leiðangursmennirnir hafa notið mikillar gestrisni bandarískra vísindamanna, sem hafa aðsetur á Suðurskautslandinu allan ársins hring.
Gísli Karel Elísson, einn leiðangursmannanna, sagði í viðtali við mbl.is að í för með þeim væru átta indverskir vísindamenn. Hinir tveir íslensku leiðangursmennirnir heita Freyr Jónsson og Eyjólfur Már Teitsson.
Förinni var heitið að bandarískri rannsóknarstöð sem starfrækt er á Suðurskautslandinu, við pólinn. „Við höfum haft aðsetur í rannsóknarstöðinni. Mjög vel var tekið á móti okkur,“ sagði Gísli.
Á tímabilinu frá nóvember 2010 til febrúar 2011 munu bílar og menn frá Arctic Trucks taka þátt í þremur leiðöngrum á Suðurskautið. Þetta er þriðja árið í röð sem fyrirtækið tekur þátt í leiðöngrum á þessum slóðum.Arctic Trucks hefur breytt átta bílum í ár til þessara leiðangra og að sögn Gísla er um að ræða Toyota Hilux bíla, sem eru á 44 tommu dekkjum.
Ekki dugar venjulegt eldsneyti við aðstæður á Suðurskautinu, heldur er notað flugvélaeldsneyti. Gísli segir að minniháttar bilanir hafi orðið á bílunum, enda mikið álag að láta þá ganga í svo miklum kulda. „Bílarnir eru látnir vera í gangi allan sólarhringinn. Við myndum aldrei koma þeim í gang ef við dræpum á þeim.“
„Hér er allt hvítt, sama hvert litið er,“ segir Gísli. „Sólin skín 24 tíma á sólarhring þannig að maður veit ekki hvort það er dagur eða nótt.“
Frostið hefur farið niður í 56 gráður. „Það er lítið mál ef maður er í íslensku föðurlandi og góðri dúnúlpu.“