Árni Páll Árnason, þá félagsmálaráðherra, og Steingrímur J. Sigfússon
fjármálaráðherra sömdu í sameiningu um að greiða hjónunum sem ráku
meðferðarheimilið í Árbót í Aðaldal þrjátíu milljónir í bætur fyrir
lokun heimilisins, þvert á eindregin mótmæli Barnaverndarstofu (BVS).
Þeir leituðu ekki til Ríkislögmanns til að kanna bótaskylduna. Þetta
sýna gögn sem Fréttablaðið hefur fengið afhent frá Barnaverndarstofu.
Gengið var frá samkomulaginu 13. október síðastliðinn eftir að Guðbjartur Hannesson hafði tekið við sem félagsmálaráðherra. Tólf milljónir hafa þegar verið greiddar úr sjóðum BVS og gert er ráð fyrir átján milljóna aukafjárveitingu vegna málsins í fjáraukalagafrumvarpi næsta árs, samkvæmt frétt í Fréttablaðinu í dag.
BVS ákvað að segja upp þjónustusamningnum við Árbót í lok síðasta árs. Þar hafði komið upp kynferðisbrotamál sem varð til þess að barnaverndarnefndir hættu að treysta heimilinu og nýting rýmanna þar hrundi. BVS nýtti því uppsagnarákvæði í þjónustusamningnum vegna forsendubrests.