Rannsóknarnefnd um Icesave til umfjöllunar

Vefsvæði Icesave.
Vefsvæði Icesave. Reuters

Allsherjarnefnd tók í morgun fyrir þingsályktunartillögu Sigurðar Kára Kristjánssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks, og fleiri um að skipa skuli rannsóknarnefnd til að skoða embættisfærslur og ákvarðanir íslenskra stjórnvalda og samskipti þeirra við bresk og hollensk stjórnvöld vegna Icesave. Sjö umsagnir voru gerðar opinberar, m.a. frá Seðlabanka Íslands sem gerir ekki athugasemdir við tillöguna.

Umsagnir bárust frá ríkislögreglustjóra, ríkissaksóknara og ríkisendurskoðun sem tóku ekki afstöðu til tillögunnar. Persónuvernd, Mannréttindaskrifstofa Íslands og Seðlabankinn gerðu ekki athugasemdir en það gerði hins vegar Viðskiptaráð Íslands.

Í umsögn Viðskiptaráðs segir m.a. að það verði ekki rengt að margt átti sér stað á síðustu árum sem ástæða sé til að koma í veg fyrir að endurtaki sig. „Hins vegar er meiri þörf á að hugsa um það sem framundan er, en ekki rýna eingöngu í því [sic] sem gerst hefur, hvernig og afhverju [sic].“

Viðskiptaráð varar einnig við því að stöðnun verði hjá stjórnvöldum og öðrum  meðan beðið er eftir niðurstöðu rannsóknarinnar, líkt og gerðist þegar beðið var skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis síðastliðið vor.

Verði það hins vegar niðurstaðan að þörf sé að rannsaka þau atriði sem kveðið er á um telur Viðskiptaráð fulla ástæðu til að skoða hvort ekki eigi að fá óháða erlenda aðila enda „[h]ægt að gera rannsóknar á rannsóknir ofan um ókomna tíð um öll þau atriði sem tortryggni ríkir um og draga þarf fram í dagsljósið, en það er til einskis ef niðurstöðu slíkra rannsókna er ekki treyst.“


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert