Fimmtán fyrrverandi starfsmenn Baugs fá innheimtuviðvörun um næstu mánaðamót vegna starfsmannalána sem þeir fengu til kaupa hluti í félaginu, að sögn fréttastofu Sjónvarpsins. Fjórir fyrrverandi stjórnendur skulda samtals meira en einn milljarð en félagið er gjaldþrota.
Fréttastofa Sjónvarpsins greindi frá því í kvöld að skiptastjóri BGE eignarhaldsfélagsins sem hélt utan um lánin til starfsmannanna hafi ákveðið að láta reyna á innheimtu lánanna um næstu mánaðamót. Um 40 fyrrverandi starfsmenn tóku slík lán, en mishá.
Fimmtán manns eru með stærstu skuldirnar og eru fjórir fyrrverandi stjórnendur Baugs lang skuldugastir vegna þessara lána. Þeir eru Jón Ásgeir Jóhannesson, Gunnar Sigurðsson, Stefán Hilmarsson og Skarphéðinn Berg Steinarsson. Þeir eru sagðir skulda samtals meira en einn milljarð króna.
Í samningunum sem starfsmennirnir gerðu við Kaupþing, Baug og BGE mun vera ákvæði um að ekki verði gengið að persónulegum eigum lántaka vegna lánanna. Skiptastjóri mun telja að þetta ákvæði gildi ekki gagnvart þrotabúum félaganna sem gerðu samningana.