Eiríkur Tómasson, prófessor við Háskóla Íslands segir skipa hefði átt Geir H Haarde fyrrverandi forsætisráðherra verjanda um leið og samþykkt var á Alþingi að höfða sakamál á hendur honum fyrir Landsdómi. Réttur hans til að fá verjanda strax sé varinn í mannréttindasáttmála Evrópu og stjórnarskrá Íslands. Þetta kom fram í fréttum RÚV í hádeginu.
Eiríkur segir að fara eigi eftir ákvæðum mannréttindasáttmálans því hann styðjist við nýrri lög en lögin um landsdóm sem eru frá 1963. Lögin um mannréttindasáttmálann eru frá 1994. Réttur Geirs njóti því ekki eingöngu verndar mannréttindasáttmálans, heldur einnig verndar íslensku stjórnarskrárinnar.