Telja vínveitingahús óheppileg fyrir skemmtanir ungmenna

Páll Óskar leikur fyrir dansi á Nasa.
Páll Óskar leikur fyrir dansi á Nasa. mbl.is/Eggert

Heimili og skóli - landssamtök foreldra hafa sent út ályktun þar sem þeir aðilar sem koma að skipulagi skemmtana tryggi að skemmtistaðir með vínveitingaleyfi verði ekki notað fyrir ungmennasamkomur. Eigandi umboðsskrifstofu sem skipulagt hefur slíkar skemmtanir er ósáttur við ályktunina og kallar eftir viðræðum við samtökin.

Stjórn Heimilis og skóla telur að það ekki sæma að halda samkomur ungmenna á stöðum sem innréttaðir eru með börum til vínveitinga og jafnvel með hangandi uppi á veggjum áfengisauglýsingar. „Slíkir staðir eru ætlaðir fullorðnu fólki 20 ára og eldri og geta ekki talist heppilegir samkomustaðir ungmenna.“

Ólafur Geir Jónsson, eigandi agent.is sem skipulagt hefur fjölmarga viðburði undanfarin misseri, þar á meðal skemmtanir fyrir fjórtán ára og eldri, upplifir ályktunina sem árás á sig og sitt fyrirtæki. Hann telur að ef fara eigi eftir henni þurfi einnig að færa böll framhaldsskóla sem í áraraðir hafa verið haldin á vínveitingastöðum á borð við Broadway og Nasa.

Hvað varðar bari og áfengisauglýsingar segir Ólafur Geir: „Allt áfengi er hreinsað út og áfengisauglýsingar annað hvort teknar niður eða svart plast sett yfir þær. Það eru reglur sem við verðum að fylgja til að fá leyfi til að halda slíkar skemmtanir.“ Hann tekur fram að unnið sé í samvinnu við lögreglu, sem sér um gæslu, og barnaverndarnefndir. Engin vandamál hafi komið upp og allir þeir sem að skemmtununum standa hafi lýst yfir ánægju sinni.

Skemmtanir í íþróttahúsum standa ekki undir sér

Í ályktun stjórnar Heimilis og skóla er einnig vísað til þess að nóg sé til af íþróttahúsnæði, félagsheimilum og öðru húsnæði sem henti mun betur undir ungmennasamkomur.  Undir þetta getur Ólafur Geir ekki heldur tekið enda standi skemmtanirnar ekki undir sér ef leigt er undir þær íþróttahús, eða jafnvel annað húsnæði. Koma þurfi upp hljóðkerfi og ljósakerfi sem geti kostað gríðarlega mikið. Á Broadway og Nasa sé þetta hins vegar til staðar.

Auk þess að benda á að framhaldsskólaböll hafi hingað til verið haldin á Nasa og Broadway án þess að foreldrasamtök geri sig gildandi segir Ólafur Geir að á fjölmennu knattspyrnumóti ungmenna sem haldið var í Reykjavík í sumar - og árlega - hafi lokaballið verið haldið á Broadway. Þá hafi foreldrasamtök ekkert sagt en ályktað nokkrum dögum síðar þegar fyrirtæki hans hélt ball á sama stað. Gæta verði jafnræðis í gagnrýni þegar að þessu kemur.

Ólafur Geir segir að endingu að engin ungmennaböll séu framundan enda stoði það ekkert á meðan þau séu haldin í óþökk við foreldrasamtök. Hann sé tilbúinn til að setjast niður og ræða hvað bæta þurfi til að samtökin sættist á skemmtanahaldið en beinir því einnig til þeirra að beina spjótum sínum í framhaldinu að framhaldsskólum landsins.

Ólafur Geir Jónsson.
Ólafur Geir Jónsson. mbl.is/Þorkell
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert