Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjaness yfir konu sem er gefið að sök á fjórða tug auðgunarbrota, auk umferðarlagabrota, nytstuldar og líkamsárásar. Er henni gert að sæta varðhaldi uns dómur gengur í máli hennar, þó ekki lengur en til 17. desember.
Fram kemur í úrskurði héraðsdóms að um tvær brotahrinur sé að ræða. Annars vegar á tímabilinu 28. apríl 2008 til 20. ágúst 2008 og hins vegar frá 3. september 2009 til 21. október 2010.
Í millitíðinni hafi konan afplánað 12 mánaða refsidóm sem hún hafi hlotið 20. mars 2007, einkum fyrir auðgunarbrot.
Í úrskurði héraðsdóms segir að með vísan til samfellds brotaferils konunnar sé það mat lögreglustjóra að yfirgnæfandi líkur séu á því að hún muni halda áfram brotastarfsemi fari hún frjáls ferða sinna.