Ánægður með fund með þingmönnum

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, er ánægður með fund sem hann átti með þingmönnum Hreyfingarinnar í gær. Segir hann á vef verkalýðsfélagsins að fundurinn hafi verið afar opinskár og málefnalegur.

Hann segist hafa nefnt það við þingmenn Hreyfingarinnar að ef atvinnurekendum og verkalýðshreyfingunni muni ekki bera gæfa til að hækka hér lágmarkslaun verulega í komandi kjarasamningum þá verði Alþingi Íslendinga að grípa inn í og lögbinda hér lágmarkslaun svo sómi sé að.

„Einnig bar lífeyrissjóðina á góma en það er skoðun formanns að aðkoma atvinnurekenda að stjórnun lífeyrissjóðanna sé afar óeðlileg enda liggur fyrir að krosseignatengsl og hagsmunaárekstrar atvinnurekenda í stjórnun sjóðanna séu klárlega til staðar.

Formaðurinn kom þeirri skoðun sinni á framfæri að breyta þurfi lögum um starfsemi lífeyrissjóðanna með þeim hætti að sjóðsfélagarnir sjálfir skipi í stjórnir sjóðanna og það séu sjóðsfélagarnir sjálfir sem kjósi sér alla sína stjórnarmenn," segir á vef Verkalýðsfélags Akraness.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert