Enn er rætt um vegaframkvæmdir

Vegaframkvæmdir
Vegaframkvæmdir Alfons Finnsson

Viðræðum Land­sam­taka líf­eyri­sjóða og full­trúa fjár­málaráðuneyt­is­ins varðandi mögu­leg­ar stór­fram­kvæmd­ir í vega­gerð og aðkomu líf­eyr­is­sjóðanna að fjár­mögn­un þeirra, var haldið áfram í dag.

Vaxta­kjör og skil­mál­ar voru aðal­efni fund­ar­ins, en  það mun vera aðalásteyt­ing­ar­steinn­inn. Nokkuð er síðan aðilar náðu sam­an um meg­in­for­send­ur fram­kvæmd­anna.

Arn­ar Sig­ur­munds­son, formaður Land­sam­taka líf­eyr­is­sjóða, seg­ir að nokkuð hafi miðað á fund­in­um í dag. „Það er ekki búið að ná lend­ingu varðandi vaxta­mál­in. Þetta er flókið verk­efni og menn munu halda áfram að skipt­ast á hug­mynd­um. Það ber ennþá nokkuð á milli, en ég held að það sé góður vilji beggja meg­in borðsins til að klára þetta. En það verður ein­hver bið á því,“ seg­ir Arn­ar.

Á vefsíðu Land­sam­taka líf­eyr­iss­sjóða seg­ir að sér­stak­ur aðgerðahóp­ur hafi verið sett­ur á lagg­irn­ar í aðdrag­anda stöðug­leika­sátt­mál­ans, en hann átti að ræða við stjórn­völd um vega­fram­kvæmd­ir. Í júní samþykkti Alþingi síðan lög um stofn­un op­in­bers hluta­fé­lags um vega­fram­kvæmd­ir. Að sögn Arn­ars  verður um tvö fé­lög að ræða, annað þeirra mun sjá um verk­efni á suður­hluta lands­ins, hitt um verk­efni á norður­hluta lands­ins. Fé­lög­in verða stofnuð um leið og „sést til lands í viðræðum.“

Um er að ræða fram­kvæmd­ir á næstu 4-5 árum sem munu nema rúm­um 30 millj­örðum. Gert er ráð fyr­ir að vega­fram­kvæmd­irn­ar verði sjálf­bær­ar að því leyti að ríkið end­ur­greiðir líf­eyr­is­sjóðunum lánið með inn­heimtu veggjalda.

Arn­ar seg­ir að ekki hafi verið ákveðið end­an­lega hversu há þau verða. En til dæm­is sé miðað við um­ferðarspár í þessu efni.

Þær stór­fram­kvæmd­ir sem rætt er um eru breikk­un Vest­ur­lands­veg­ar og Suður­lands­veg­ar, fram­kvæmd­ir við Reykja­nes­braut og Vaðlaheiðargöng. Um er að ræða afar stórt verk­efni, „Þetta yrði með stærri skulda­bréfa­út­gáf­um síðari ára.“

„Við vor­um að von­ast til að hægt yrði að sjá fyr­ir end­ann á þess­um viðræðum í byrj­un des­em­ber,“ seg­ir Arn­ar og seg­ist hvorki bjart­sýnn né svart­sýnn á að sú áætl­un gangi eft­ir.



Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert