Enn er rætt um vegaframkvæmdir

Vegaframkvæmdir
Vegaframkvæmdir Alfons Finnsson

Viðræðum Landsamtaka lífeyrisjóða og fulltrúa fjármálaráðuneytisins varðandi mögulegar stórframkvæmdir í vegagerð og aðkomu lífeyrissjóðanna að fjármögnun þeirra, var haldið áfram í dag.

Vaxtakjör og skilmálar voru aðalefni fundarins, en  það mun vera aðalásteytingarsteinninn. Nokkuð er síðan aðilar náðu saman um meginforsendur framkvæmdanna.

Arnar Sigurmundsson, formaður Landsamtaka lífeyrissjóða, segir að nokkuð hafi miðað á fundinum í dag. „Það er ekki búið að ná lendingu varðandi vaxtamálin. Þetta er flókið verkefni og menn munu halda áfram að skiptast á hugmyndum. Það ber ennþá nokkuð á milli, en ég held að það sé góður vilji beggja megin borðsins til að klára þetta. En það verður einhver bið á því,“ segir Arnar.

Á vefsíðu Landsamtaka lífeyrisssjóða segir að sérstakur aðgerðahópur hafi verið settur á laggirnar í aðdraganda stöðugleikasáttmálans, en hann átti að ræða við stjórnvöld um vegaframkvæmdir. Í júní samþykkti Alþingi síðan lög um stofnun opinbers hlutafélags um vegaframkvæmdir. Að sögn Arnars  verður um tvö félög að ræða, annað þeirra mun sjá um verkefni á suðurhluta landsins, hitt um verkefni á norðurhluta landsins. Félögin verða stofnuð um leið og „sést til lands í viðræðum.“

Um er að ræða framkvæmdir á næstu 4-5 árum sem munu nema rúmum 30 milljörðum. Gert er ráð fyrir að vegaframkvæmdirnar verði sjálfbærar að því leyti að ríkið endurgreiðir lífeyrissjóðunum lánið með innheimtu veggjalda.

Arnar segir að ekki hafi verið ákveðið endanlega hversu há þau verða. En til dæmis sé miðað við umferðarspár í þessu efni.

Þær stórframkvæmdir sem rætt er um eru breikkun Vesturlandsvegar og Suðurlandsvegar, framkvæmdir við Reykjanesbraut og Vaðlaheiðargöng. Um er að ræða afar stórt verkefni, „Þetta yrði með stærri skuldabréfaútgáfum síðari ára.“

„Við vorum að vonast til að hægt yrði að sjá fyrir endann á þessum viðræðum í byrjun desember,“ segir Arnar og segist hvorki bjartsýnn né svartsýnn á að sú áætlun gangi eftir.



Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka