Fjölmiðlar vandi umfjöllun um málefni geðveikra

Geðhjálp
Geðhjálp

Geðhjálp skorar í yfirlýsingu á alla fjölmiðla að vanda umfjöllun sína um málefni geðveikra.

„Það er ábyrgðarhlutur af hálfu fjölmiðla hvernig fjallað er um málefni sem tengjast fólki með geðsjúkdóma og aðstandendum þeirra. Geðhjálp hefur verulegar áhyggjur af þeirri orðræðu sem hefur einkennt umræðuna um málaflokkinn undanfarna daga, hvort sem litið er til dagblaða, ljósvakamiðla eða veraldarvefsins.

Nafnlausir heimildarmenn og önnur munnmæli eru varasöm og hafa ber í huga siðareglur, fagleg vinnubrögð, vísindalegar staðreyndir og almennt tillit við einstaklinginn við slíkar umfjallanir.

Orðræða á netinu endurspeglar í mörgum tilfellum umræðu í fjölmiðlum og saman geta þessir miðlar ýtt verulega undir fordóma, staðreyndarvillur og rangtúlkanir á málefninu. Vandamálin sem fylgja geðsjúkdómum eru æði misjöfn og í vel flestum tilfellum ber fólk geðveiki ekki utan á sér.

Á árinu 2009 voru rúmlega 37% af þeim sem voru með greinda örorku með geðraskanir eða rúmlega 5600 manns. Það er stærsti hluti þeirra sem eru með einhverskonar greiningu samkvæmt Tryggingastofnun ríkisins. Þessi tölfræði sýnir þó einungis brot af þeim fjölda sem glímir við geðraskanir í samfélaginu.

Geðveikir og aðstandendur þeirra hafa í gegnum tíðina, samhliða sjúkdómnum, þurft að glíma við fordóma og fáfræði í sinn garð. Geðhjálp telur það brýnt að útrýma þessum fordómum svo fólk með geðsjúkdóma geti fengið, til jafns við aðra sjúklingahópa, að beina kröftum sínum að því að ná bata," segir í yfirlýsingu  Geðhjálpar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert