Árni M. Mathiesen, þáverandi fjármálaráðherra, fór nánast með síðasta gjaldeyrinn úr Seðlabankanum með sér á ársfund Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington, vikuna sem íslensku bankarnir hrundu.
Fram kemur í nýrri bók Árna, sem nefnist Árni Matt – Frá bankahruni til byltingar, að hann velti því fyrir sér hvort hann ætti að sitja heima út af ástandinu „þegar húsið stæði í ljósum logum“ en komst svo að þeirri niðurstöðu að hann gerði meira gagn með því að halda utan. Í Washington væru allir sem þurfti að ræða við til að finna leiðir út úr vandanum á Íslandi og því væri nærtækari samlíking að segja að hann hefði hlaupið út til þess að sækja slökkviliðið.
„Það var mjög skrýtið að yfirgefa landið þennan dag,“ segir Árni í bókinni en hann fór til Washington fimmtudaginn 9. október 2008.
„Allir stóru bankarnir þrír höfðu fallið á þremur dögum, sá síðasti, Kaupþing, einmitt sama dag og ég fór út. Óvissan var slík að maður vissi ekki hvað mundi gerast hérna heima. Hvort konan og börnin gætu farið út í búð að kaupa í matinn, bjargað sér á meðan maður væri í burtu. Eða hvort ég gæti notað kreditkortið þegar ég færi út af hótelinu og þyrfti að borga reikninginn. Til öryggis varð ég þess vegna að hafa með mér reiðufé, því að það hefði orðið óbærilegur álitshnekkir fyrir Ísland ef fjármálaráðherra landsins gæti ekki borgað reikninginn sinn af því kortið hans virkaði ekki! Ég hef aldrei verið með annað eins af peningum á mér á ferðalagi. Ég held ég hafi nánast verið með síðasta gjaldeyrinn úr Seðlabankanum, því að þeir höfðu látið Kaupþing hafa allan gjaldeyrisforðann sem þeir voru með hérna heima þannig að það voru engir peningar eftir í Seðlabankanum. Seðlabankinn hafði skrapað botninn til þess að láta okkur fá seðlana. Sem betur fer reyndist allt vera í lagi með greiðslukerfin þegar á reyndi þannig að við gátum notað kortið og Seðlabankinn fékk seðlana sína aftur.“
Í bókinni, sem Árni skrifar ásamt Þórhalli Jósepssyni, lýsir hann frá sínum bæjardyrum bankahruninu, aðdraganda þess og eftirmálum og tildrögum þess að hann ákvað að segja skilið við stjórnmálin.