Breyting var gerð á umsjón fuglamerkinga hjá Náttúrufræðistofnun þegar flutt var í nýtt húsnæði í Garðabæ. Fuglamerkingar heyra nú undir vistfræðideild stofnunarinnar og vinnuhópur skipaður sem annast mun daglega umsýslu.
Í vinnuhópnum eru fuglafræðingar stofnunarinnar auk nokkurra starfsmanna upplýsingadeildar og skrifstofu. Fyrir hópnum fer Guðmundur A. Guðmundsson dýravistfræðingur. Dagleg umsýsla með fuglamerkingum, svo sem móttaka merkja, útsending svarskýrslna og innsláttur gagna, verður í höndum þeirra Helgu Valdemarsson og Svenju Auhage.
Tilkynningar um fund á fuglamerki skal senda í pósti á:
Náttúrufræðistofnun Íslands, Fuglamerki, Urriðaholtsstræti 6-8, Pósthólf 125, 212 Garðabær.
Einnig má tilkynna endurheimtur símleiðis í síma: 5 900 500, eða með tölvupósti: fuglamerki@ni.is.
Fuglamerkingar á Íslandi hófust 1921 á vegum Danans Peter Skovgaard. Skömmu síðar (1932) byrjuðu fuglamerkingar á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands (þá Náttúrugripasafnið). Allan þann tíma hafa aðeins þrír menn borið hitann og þungann af fuglamerkingunum; fyrstu árin Magnús Björnsson, en lengst af Finnur Guðmundsson (til ársins 1978) og Ævar Petersen eftir daga Finns, samkvæmt frétt Náttúrufræðistofnunar.