Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra, á rétt á að fá skipaðan verjanda í kjölfar ákvörðunar Alþingis um málshöfðun á hendur honum fyrir landsdómi. Þetta er mat Eiríks Tómassonar, lagaprófessors við Háskóla Íslands. Átta vikur eru í dag liðnar frá því Alþingi samþykkti að höfða bæri sakamál á hendur Geir og hefur hann krafist þess að honum verði skipaður verjandi tafarlaust.
Eiríkur segir að réttur Geirs til að fá skipaðan verjanda eftir ákvörðun Alþingis sé m.a. varinn af ákvæðum í 6. grein laganna um Mannréttindasáttmála Evrópu, þar sem kveðið er á um að sá sem er borinn sök um refsivert brot skuli eiga rétt til réttlátrar og opinberrar málsmeðferðar innan hæfilegs tíma. Þessi réttur sé einnig varinn af 1. málsgrein 70. greinar stjórnarskrárinnar.
Í lögum um landsdóm segir að forseti landsdóms skuli skipa hinum ákærða verjanda svo fljótt sem verða megi. Því hefur verið borið við að það sé túlkunaratriði hvort Geir teljist ákærður eftir ákvörðun Alþingis eða þá fyrst þegar saksóknari gefur út ákæru.
Eiríkur er annarrar skoðunar. Að sögn hans er almenna reglan í lögum um meðferð sakamála sú að menn eiga rétt á að fá skipaðan verjanda þegar ákæra er gefin út á hendur þeim. Aftur á móti sé líka gert ráð fyrir því í lögum að menn eigi rétt á að fá skipaðan verjanda fyrr, t.d. ef þeir eru handteknir í þágu rannsóknar. Ákvörðun Alþingis um saksókn sé svo sérstök vegna þess að þeirri ákvörðun verði ekki breytt, heldur eingöngu útfærð af saksóknara Alþingis. „Ég tel að það standi engin rök til þess að draga það að skipa verjanda. Ég hef alla vega ekki komið auga á þau lagarök.“
Að mati hennar reynir hér á túlkun á lögunum um meðferð sakamála og um landsdóm. Í sakamálalögunum fái viðkomandi t.d. skipaðan verjanda við handtöku og við skýrslutöku sem sakborningur. Í lögunum um landsdóm sé hins vegar talað um ákærða frá því að Alþingi hefur samþykkt þingsályktun um saksókn. „Ég er að skoða þetta með hliðsjón af lagatextunum. Svo er líka vísað í að sakamálalögin eigi að gilda þar sem landsdómslögunum sleppir þannig að þetta þarf einhvern veginn að túlka saman,“ segir hún.
Spurð hvort það sé ekki ójafn leikur að Geir hafi ekki skipaðan verjanda á sama tíma og saksóknari vinnur að gagnaöflun segir Sigríður að gert sé ráð fyrir því að sækjandinn afli allra gagna til stuðnings ákærðuatriðunum. „Það er okkar hlutverk að afla gagna að baki þessum sakargiftum og þá að horfa til þess sem horfir bæði til sýknu og sektar eins og venja er og er skylda sækjandans.“
Brynjar Níelsson, formaður Lögmannafélags Íslands, segir það ekki liggja í augum uppi hvort skipa eigi verjanda þegar Alþingi samþykkir málshöfðun eða hvort bíða eigi eftir að saksóknari gefi út formlega ákæru. Lögin séu óskýr og ófullkomin hvað þetta varðar. ,,Stóra vandamálið í þessu er að menn standa allt í einu frammi fyrir því að kalla á landsdóm saman og sjá að löggjöfin er ófullkomin. Þá er lagt fram frumvarp um lagabreytingar úti í miðri á. Það finnst mér ekki sniðugt. Málsmeðferðin er komin í gang og þess vegna finnst mér fljótt á litið að það sé nærtækari skýring að [Geir] eigi rétt á verjanda eftir að ákvörðun Alþingis liggur fyrir.“
Mikilvægt að fá verjanda