Þingmenn þvoi sér í framan

Mörður Árnason.
Mörður Árnason.

Nokkuð einkennilegar umræður voru á Alþingi í dag um fundarstjórn forseta þingsins, þar sem m.a. var fjallað um hvort þingmenn væru hreinir í framan eða ekki.

Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, sló tóninn þegar hann ávarpaði Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, forseta Alþingis, sem fundarstjóra, henni til nokkurrar undrunar.

Mörður sagði síðan sagði að þrátt fyrir hrun á trausti á Alþingi héldu þingmenn áfram að tala úr skjóli hinnar meintu samtryggingar með þeirri ræðu, að ef fundið væri að vinnubrögðum fyrrverandi og núverandi stjórnvalda sprytti upp þingmaður, reyndur í sínum störfum á vegum banka og útrásarvíkinga og segði: Þú líka, þú líka.

„Og ef að því er fundið spretta upp aðrir tveir þingmenn og fara að skammast með dylgjum og steigurlátum. Þetta er þannig, að menn ættu að fara heim, reyna að læra heima og hugsa sig um, koma svo aftur og reyna að hafa þvegið sér í framan áður en þeir koma í ræðustól með slíkan málflutning," sagði Mörður.

Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, virtist taka ummæli  Marðar til sín. Óskaði hún eftir því, að skýrsla þingmannanefndar, sem fjallaði um skýrslu ráðherranefndar Alþingis, yrði kynnt sérstaklega fyrir Merði „sem veitir nú ekki af að fá smá skóla í því hvernig siðaðir menn haga sér hér í pontu. Ég veit ekki betur en að ég hafi farið í sund í morgun, er nýþvegin í framan og er stolt af því hvernig ég hef hagað mínum málflutningi í þinginu," sagði Unnur Brá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka