Samtals komu 68.033 farþegar með 73 skemmtiferðaskipum til Reykjavíkur í sumar og er það nánast sami fjöldi og í fyrra. Flestir ferðamennirnir voru frá Þýskalandi og fjölgaði þeim um rúm 10% frá árinu áður.
Að sögn Faxaflóahafna fjölgaði spænskum ferðalöngum mest. Í sumar voru þeir 4.681 talsins, eða um það bil 3.800 fleiri en árið 2009.
Fram kemur á vef Faxaflóahafna að þessa aukningu megi fyrst og fremst rekja til þess að í sumar hafi farþegum verið flogið beint til Íslands, en skipið Gran Mistral hafi skipt um farþega hér á landi.
Þá segir að ítölskum farþegum hafi einnig fjölgað verulega, eða um u.þ.b. 50%. Segir að ítölsku útgerðirnar COSTA og MSC sigli nú í auknum mæli á
norðurslóðir.
Þá segir að ýmislegt bendi til þess að heimsóknum skemmtiferðaskipa til Reykjavíkur muni fækka á næsta ári, en farþegafjöldi muni verða svipaður og í ár.