8 ára fangelsi fyrir fíkniefnasmygl

Lögregla sýnir amfetamínbasann, sem fannst í bílnum í sumar.
Lögregla sýnir amfetamínbasann, sem fannst í bílnum í sumar. mbl.is/Júlíus

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í gær fertuga þýska konu Elenu Neuman, í 8 ára fangelsi fyrir að flytja til landsins nærri 20 lítra af amfetamínbasa, sem falinn var í bensíngeymi bíls. Önnur þýsk kona, 32 ára, sem var með henni í ferð og sætti ákæru í sama máli, var sýknuð.

Neuman hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því í júní þegar konurnar voru handteknar á Seyðisfirði en þær komu með Norrænu til Íslands.

Talið var að úr amfetamínbasanum væri hægt að búa til rúmlega 264 kg af amfetamíni, sem svarar til næstum allrar ársneyslu á Íslandi af þessu efni.

Grunur leikur á, að Lithái, sem dæmdur var hér árið 2006 í 4 ára fangelsi fyrir að flytja inn amfetamínvökva og brennisteinssýru, tengist málinu. Óskaði lögreglan hér á landi eftir því við lögregluna í Litháen að maðurinn yrði handtekinn og yfirheyrður en ekki hefur tekist að hafa uppi á honum.

Í dómnum segir, að   Elena hafi gert sér far af fremsta megni um að afvegaleiða rannsókn málsins og breytt framburði sínum hjá lögreglu við rannsókn málsins og lítið sem ekkert upplýst að fyrra bragði og nánast ekki fyrr en henni varð kunnugt um að lögreglan hefði upplýsingar sem hún gat ekki mælt í mót.

Skýrar vísbendingar séu um, að Elena hafi verið virkur þátttakandi í brotinu og hafi með ósannindum, röngum og misvísandi framburði reynt að hindra lögreglu í að upplýsa um brotið og afvegaleiða rannsóknina eftir fremsta megni.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness

mbl.is

Bloggað um fréttina

  • Engin mynd til af bloggara Axel Þór Kolbeinsson: Vá!
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert