Menntunarstig þjóðarinnar verði hækkað

Áætlað er að um 30% Íslendinga á aldrinum 25 til …
Áætlað er að um 30% Íslendinga á aldrinum 25 til 64 ára hafi ekki lokið formlegu námi umfram skyldunám mbl.is/Kristinn

Samstarfsyfirlýsing um að hækka menntunarstig íslensku þjóðarinnar til aukinnar virkni í atvinnulífi og samfélaginu í heild var undirrituð í dag. Við sama tækifæri var skrifað undir nýjan þjónustusamning á milli mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins.

Að samstarfsyfirlýsingunni standa mennta- og menningarmálaráðuneyti, Alþýðusamband Íslands (ASÍ), Bandalag starfsmanna ríkis og bæja (BSRB), Samtök atvinnulífsins (SA), fjármálaráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga.

Menntunarstig með því lægsta sem þekkist í Evrópu

Segir í tilkynningu frá ráðuneytinu að áætlað sé að um 30% Íslendinga á aldrinum 25 til 64 ára hafi ekki lokið formlegu námi umfram skyldunám. Á þessu sviði sé menntunarstig hér á landi með því lægsta sem þekkist í Evrópu.

Samstarfsyfirlýsingin feli í sér að unnið verði markvisst að því að hlutfall fólks á vinnumarkaði án viðurkenndrar starfs- eða framhaldsskólamenntunar verði ekki hærra en 10% árið 2020. Til að ná því markmiði verði framhaldsfræðsla efld. Jafnframt verði tryggt að menntun og færni sem sé metin innan framhaldsfræðslunnar verði viðurkennd innan framhaldsskólans og þeir sem þess óski geti  bætt við menntun sína án hindrana.

Fólk fái tækifæri til að afla sér menntunar

Meginmarkmiðið sé að veita fólki á vinnumarkaði með litla grunnmenntun, fólki sem horfið hafi frá námi án þess að ljúka námi á framhaldsskólastigi, innflytjendum og öðrum sambærilegum hópum tækifæri til að afla sér menntunar, bæta stöðu sína á vinnumarkaði og í samfélaginu sem heild. Þá þurfi framhaldsfræðslan að greiða leið þeirra sem þurfa vegna breyttra aðstæðna á vinnumarkaði á  nýrri þekkingu og færni að halda.

Með öflugri framhaldsfræðslu sé ætlunin að efla lýðræðislega þátttöku í samfélaginu og stuðla að jákvæðri byggðaþróun í landinu, stuðla að jafnrétti, auka félagslega aðlögun jaðarhópa m.a. fatlaðra og innflytjenda að atvinnulífi og samfélaginu, auka læsi fullorðinna, efla íslenskukennslu fyrir fullorðna innflytjendur og auka starfstengda íslenskukennslu fyrir þá.

Á grundvelli yfirlýsingarinnar hafi mennta- og menningarmálaráðuneytið gert þjónustusamning við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins um verkefni í framhaldsfræðslu til ársins 2015. Með samningnum sé Fræðslumiðstöð atvinnulífsins falin umsjón með ýmsum verkefnum er varða framkvæmd laga um framhaldsfræðslu.

Heimasíða menntamálaráðuneytisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert