Nefndaformenn deildu um efnahagsmál

Helgi Hjörvar.
Helgi Hjörvar.

Það vakti athygli í umræðu um störf þingsins á Alþingi í dag, að þau Lilja Mósesdóttir, þingmaður VG og formaður viðskiptanefndar þingsins og Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður efnahags- og skattanefndar, voru afar ósammála um áhrif Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á efnahagsmál hér á landi.

Lilja sagði meðal annars í umræðunni, að hún hefði lengi varað við því, að efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins dýpkaði kreppuna hér á landi.

Helgi sagði, að það væri þægilegt að finna sökudólga fyrir efnahagsstöðu sinni í einhverjum öðrum og einkanlega væri auðvelt að finna einhverjar vondar stofnanir í útlöndum, eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, til að bera ábyrgðina.

„En auðvitað er það ekki þannig. Það mun hvorki skapa hagvöxt að halda áfram að safna skuldum og forðast erfiðar ákvarðanir um niðurskurð né að hækka skatta frekar, eins og formaður efnahags- og skattanefndar hefur lagt hér til. Það sem mun skapa hér hagvöxt og koma hjólum efnahagslífsins af stað er fjárfesting, ekki síst erlend fjárfesting og samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn er lykilatriði í því að koma hér af stað þeim fjárfestingarverkefnum, sem okkur hefur ekki tekist að hrinda í framkvæmd," sagði Helgi.

Sigurður Ingi Jóhannesson, þingmaður Framsóknarflokksins, að áhugavert hefði verið að hlusta á öfluga þingmenn úr sitthvorum stjórnarflokknum rífast um stefnu og skoðanir. Það væri ekki skrítið þótt ríkisstjórninni gengi erfiðlega að koma málum fram þegar ágreiningurinn væri svona mikill.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert