Niðurskurður hafi ekki áhrif á heilsu landsmanna

Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupsstað
Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupsstað

Heilbrigðisráðherra væntir þess að þær breytingar, sem gera á á fjárlagafrumvarpinu vegna framlaga til heilbrigðisstofnana, muni ekki hafa áhrif á heilsufar landsmanna. Landlæknir fylgist með heilbrigðisþjónustunni og komi fram neikvæð áhrif verði brugðist við því.

Gunnar Bragi Sveinsson, Framsóknarflokki, spurði Guðbjart Hannesson heilbrigðisráðherra hverjar kynnu að verða heilsufarslegar afleiðingar þeirrar tafar sem verði á því að sjúklingar komist undir læknishendur, sem „óhjákvæmilega fylgir boðuðum niðurskurði á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2011,“ eins og það var orðað í fyrirspurn til ráðherra.

Í svari ráðherra segir m.a. að í fjárlagafrumvarpinu sé lögð mikil áhersla á að heilsugæsla verði áfram öflug og mönnun lækna óbreytt í heilsugæslu. Því sé ekki ástæða til að ætla að tafir verði á því að sjúklingar komist undir læknishendur. Víða um landið hafi heilsugæslan getað nýtt sjúkrarými til innlagna. Fjölda þessara rýma verði að nokkru leyti betur jafnað milli heilbrigðisumdæma en þessi þáttur þjónustunnar verði áfram til staðar.
    „Bráðaþjónusta við landsmenn er nú þegar í föstum skorðum og ekki er ætlunin að hrófla við þeim. Alvarlegum slysum og veikindum sem krefjast sérhæfðrar þjónustu er að mestu leyti sinnt á tveimur helstu sjúkrahúsum landsins, Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri, og eru ekki fyrirhugaðar breytingar á því. Ekki er heldur gert ráð fyrir stórfelldum breytingum á þeirri almennu bráðaþjónustu sem sjúkrahús veita í öllum heilbrigðisumdæmum.
    Að öllu samanlögðu er þess vænst að þær breytingar sem gert er ráð fyrir í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2011 hafi ekki áhrif á heilsufar landsmanna. Landlæknir hefur eftirlit með heilbrigðisþjónustu og komi fram neikvæð áhrif niðurskurðarins á heilsu verður brugðist við því,“ segir í svari heilbrigðisráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert