Ökumenn ekki með hugann við aksturinn

Mikil umferð er iðulega um Miklubraut
Mikil umferð er iðulega um Miklubraut mbl.is/Ernir

Á þriðja tug umferðaróhappa urðu á höfuðborgarsvæðinu í gær að sögn framkvæmdastjóra Aksturs og Öryggis, en fyrirtækið annast vettvangsrannsóknir umferðaróhappa. Hann segir að langflest óhappanna megi rekja til þess að ökumenn hafi ekki verið með hugann við aksturinn.

Ómar Þorgils Pálmason, framkvæmdastjóri Aksturs og Öryggis, segir í samtali við mbl.is að óhöppin hafi átt sér stað á milli 7:45 og 18:30. Þá hafi þremur þriggja bíla árekstrum verið sinnt, m.a. á Miklubraut og á Hafnarfjarðarvegi.

Ómar segir að óhöppin hafi ekki verið hálkutengd og töluvert hafi verið um aftanákeyrslur. „Akstursskilyrði voru alveg með ágætum í gær þannig að það er ekki því um að kenna,“ segir hann.

„Menn eru ekki alveg með hugann við aksturinn. Það sást svolítið í gær.“ Þetta hafi verið fleiri óhöpp heldur en á venjulegum degi, en daglega annast fyrirtækið á um annan tug umferðaróhappa á höfuðborgarsvæðinu. Þetta hafi því verið þriðjungsfjölgun á einum degi.

Þá var eignatjón töluvert.

Starfsmenn Aksturs og Öryggis eru fyrrverandi eða núverandi lögreglumenn með reynslu af aðkomu árekstra og slysa, að því er segir á vef fyrirtækisins. 

Ef um umferðarslys er að ræða er lögreglan kölluð á vettvang. Annars sinnir Akstur og Öryggi minni umferðaróhöppum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert