Vinnustaðapartý sem haldið var á skemmtistað í miðborg Reykjavíkur í nótt fór úr böndunum þegar æsingar á milli manna leiddu til þess að hópslagsmál brutust út. Kallað var til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um hálftvö leytið í nótt til að skakka leikinn. Þrír voru fluttir á slysadeild eftir slagsmálin að sögn lögreglu. Um minniháttar áverka var að ræða en starfsmenn voru lemstraðir eftir pústrana, þar á meðal einn með brotna tönn.
Að sögn lögreglu var um stóran vinnustað að ræða og hófið því nokkuð fjölmennt. Ekki er vitað fyrir víst hvert upphaf slagsmálanna var en lögregla segir að þau megi fyrst og fremst rekja til mikillar ölvunar. Fyrir liggur hverjir gerendur voru en óvíst er hvort ákærur verða að sögn lögreglu.