Skutu hreindýr og skildu hræin eftir

Hreindýr rétt norðan við Þvottárskriður
Hreindýr rétt norðan við Þvottárskriður Ómar Óskarsson

„Þetta er svo bíræfið, manni bara blöskrar, græðgin er svo yfirgengileg," segir Skarphéðinn G. Þórisson, hreindýrasérfræðingur hjá Náttúrustofu Austurlands. Hræ tveggja ungra hreindýrstarfa fundust í vegkanti við þjóðveginn við mynni Hamarsdals. Er ljóst að þar voru veiðiþjófar á ferðinni.

„Það var hrafnager þarna, þess vegna stoppuðum við til að kíkja á þetta. Þetta er alveg nýtt, við fullyrðum það, hefur líklega verið skotið í gær," segir Skarphéðinn sem ók fram á hræin ásamt Reimari Ásgeirssyni hreindýraleiðsögumanni.  Frampartar dýranna voru skildir eftir og segir Skarphéðinn ljóst að þarna hafi menn aðeins viljað hirða það besta og það líklega til að selja. Aðkoman hafi verið ljót.

„Þetta er náttúrulega síðasta sort þegar menn eru á veiðum, hvort sem þeir eru að stela eða ekki, að þeir ganga ekki svona um. Og þarna eru menn ekkert að reyna að fela þetta, þetta er svo bíræfið og vísbending um að þessir menn telja sig geta komist upp með þetta vegna þess að þeir hafa gert það áður."

Hreindýraveiðitímabilinu lauk þann 20. september og því er alveg ljóst að þarna var verið að skjóta í leyfisleysi. Skarphéðinn segir að slíkur veiðiþjófnaður hafi verið viðloðandi suðausturland. „Það var í gamla daga talað um veiðiþjófa uppi á Héraði, en með breyttu kerfi og fyrirkomulagi breyttist þetta að mestu leyti. En eftir að dýrunum fjölgaði hér á suðausturlandi þá hafa verið sögusagnir á hverju ári í mörg ár og svo erum við að finna svona hræ af stolnum dýrum annað slagið og þar með staðfestast þessar sögur."

Skarphéðinn segir að nokkurn veginn sé vitað hverjir eru á ferðinni þegar skotið er í leyfisleysi. Lítið hafi verið gert í því til þessa en því þurfi að breyta. Lögreglunni á Höfn í Hornafirði hefur verið tilkynnt um málið og mun rannsaka það nánar.

„Hagur bæði heimamanna og veiðimanna er náttúrulega að þetta sé í lagi," segir Skarphéðinn. „ Ég hef verið að vinna í því að telja dýrin til að átta okkur á samsetningunni og fjöldanum, meðal annars til þess að geta gefið út skynsamlega veiðikvóta en þeir breytast náttúrulega ef menn eru að skjóta svona.  Við höfum verið gagnrýnd fyrir að ofmeta kvótann og það er kannski tilfellið ef verið er að skjóta dýrin."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert