Um 5.600 manns hafa kosið utan kjörfundar vegna stjórnlagaþingskosninganna á laugardaginn, þar af um 4.100 í Reykjavík. Um 1.300 manns hafa kosið í Laugardalshöll í dag en þar var opið til 10 í kvöld.
Að sögn Bergþóru Sigmundsdóttur hjá embætti Sýslumannsins í Reykjavík hefur kjörsóknin í Laugardalshöll vaxið dag frá degi þessa vikuna. Um 600 manns skiluðu atkvæði sínu á mánudag, um 1.000 í gær og um 1.300 það sem af er degi í dag, sem fyrr greinir. Aðsend atkvæði er um 200 talsins.
Utankjörfundaratkvæðagreiðsla fer fram í Laugardalshöll á morgun frá kl 10-22 en aðeins milli 10 og 12 á föstudag. Kosningarnar fara svo fram um allt land á laugardag. Reiknað er að að úrslit liggi ekki fyrir fyrr en á mánudag, og þá skýrist hvaða 25 frambjóðendur komast á sjálf stjórnlagaþingið, sem ætlað er að koma með tillögur að endurbættri stjórnarskrá íslenska lýðveldisins.