David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, hefur boðið þjóðarleiðtogum Norðurlandanna fimm og Eystrasaltslandanna þriggja til leiðtogafundar í janúar með það að markmiði að styrkja efnahagsleg- og félagsleg tengsl Breta við þessi ríki.
Að sögn Reutersfréttastofunnar hefur Cameron boðið leiðtogum Íslands, Danmerkur, Noregs, Svíþjóðar og Finnlands, og Eistlands, Lettlands og Litháens til fundar 19. og 20. janúar. Þar eigi að fjalla um ýmis félagsleg mál en einnig um leiðir til að styrkja samkeppnisstöðu ríkjanna og hugsanlega um olíuiðnaðinn í Norðursjó.
„Á þessum fundi mun koma saman fólk frá níu löndum, sem fást við sameiginleg vandamál," hefur Reuters eftir talsmanni Camerons.
Breski forsætisráðherrann hefur lagt áherslu á utanríkismál eftir að hann tók við völdum í Bretlandi í maí. Ríkisstjórn Íhaldsflokksins og Frjálslyndra demókrata vill auka útflutning til að ná jafnvægi í hagkerfinu á ný og styrkja atvinnulífið á sama tíma og opinber útgjöld eru skorin mikið niður.
Að sögn Reuters er Svíþjóð í 10. sæti yfir þau ríki, sem kaupa mestar vörur af Bretlandi. Noregur er í 23. sæti, Danmörk í 24. sæti og Finnland í 30. sæti. Hin ríkin fjögur eru ekki á lista yfir 50 helstu viðskiptalönd Bretlands.
AP fréttastofan hefur eftir Richard Whitman, sérfræðingi í Evrópustjórnmálum, að hugmynd Camerons um þennan leiðtogafund sé einkennileg vegna þess að hún vísi til fornra tengsla Bretlands og Skandinavíu.
Mörg þessara ríkja deili með Bretum tortryggni í garð Evrópusambandsins og vilji ekki að samstarf ríkjanna innan þess verði of náið. Þá séu tvö þeirra, Ísland og Noregur, ekki í ESB þótt Ísland hafi sótt um aðild.
„Ef maður vill vera óvinsamlegur, þá er hægt að segja, að breska samsteypustjórnin sé að styrkja tengsl sín við efasemdararm Evrópusambandsins," sagði Whitman
Blaðið The Herald í Skotlandi hefur hins vegar í dag eftir heimildarmönnum á skrifstofu breska forsætisráðherrans, að tilgangurinn með fundinum sé ekki að reyna að skapa valdamótvægi við Evrópusambandið heldur einungis að búa til vettvang til að skiptast á skoðunum og hugmyndum.
Skoska heimastjórnin hefur gagnrýnt, að
Alex Salmond, forsætisráðherra, sé ekki á gestalistanum á fundinum í
janúar í ljósi þess að þar eigi að ræða olíu- og gasvinnslu og
endurnýjanlega orku.