Álver á Bakka við Húsavík er út af borðinu enda er ljóst að ekki er til næg raforka fyrir 360.000 tonna álver á staðnum. Þetta fullyrðir Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, en hann vill að talsmenn álversframkvæmda biðjist afsökunar í kjölfar niðurstöðu Skipulagsstofnunar.
Skipulagsstofnun telur, að heildaráhrif Kröfluvirkjunar II, Þeistareykjavirkjunar, álvers á Bakka við Húsavík og háspennulína frá Kröflu og Þeistareykjum að álveri á Bakka muni óhjákvæmilega hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum.
Árni fagnar niðurstöðunni.
„Þetta er mikilvægur úrskurður. Í öðru lagi held ég að margir þeir, ef ekki allir, sem hafa harkalega gagnrýnt stjórnvöld og þá sérstaklega Þórunni Sveinbjarnardóttur, eða sitjandi umhverfisráðherra, fyrir að vilja ganga varlega fram ættu að hugsa sinn gang. Þær ættu að biðjast afsökunar, margir af þeim, vegna þessa.“
Lærdómur frá bankahruninu
- Telurðu að menn hafi farið offari?
„Ég held að nauðsynlegt sé að skoða hlutina í samhengi og gera það vel. Nú er þetta ekki endapunkturinn í málinu. Númer eitt er að Skipulagsstofnun kynni þennan úrskurð fyrir norðan og sunnan þannig að bæði hagsmunaaðilar og þá náttúruverndarfólk, embættismenn og stjórnmálamenn geti kynnt sér hvað það er mikið í húfi.
Ég hef bent á að ef menn hefðu verið svona varkárir áður en hlaupið var af stað með Icesave í Hollandi og Bretlandi væru við kannski í minni vandræðum, eða hvað það var sem bankamennirnir gerðu án þess að það væri vikið að því hvaða afleiðingar það myndi hafa.“
Viðurkenning á málsmeðferð NSÍ
- Líturðu á þetta sem sigur fyrir Náttúruverndarsamtök Íslands?
„Þetta er mikil viðurkenning á þeirri málsmeðferð sem við settum fram í okkar kæru. Meginatriðið er að umhverfismat á að leiða í ljós öll hugsanleg áhrif. Þess vegna gerðum við kröfu um sameiginlegt mat. Það ætti að vera reglan, ekki undantekningin. Þetta sýnir, eins og ráðherrann nefndi vegna línanna út á Reykjanes, að það þarf að breyta lögum um mat á umhverfisáhrifum þannig að heildstætt mat sé ávallt reglan þegar um fleiri en eina framkvæmd er að ræða.“
- Telurðu að álver á Bakka sé þar með út af borðinu?
„Ég tel að það hafi verið það fyrir þennan tíma. Landsvirkjun hefur kynnt að hún hafi eiginlega ekki orku til þess,“ segir Árni og átelur hugmyndir um að ganga hratt á jarðvarmaauðlindir á nokkrum áratugum sem verði síðan óvirkar í þúsundir, ef ekki tugþúsundir ára.