Ögmundur Jónasson, dóms- og mannréttindaráðherra segir að blindir muni geta greitt atkvæði í kosningunum til Stjórnlagaþings á laugardaginn án þess að þurfa að hafa fulltrúa kjörstjórnar inni í kjörklefanum.
Blindir og sjónskertir voru ósáttir við það fyrirkomulag og töldu með því að réttur þeirra til að kjósa leynilega væri fyrir borð borinn.
Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins lagði fram frumvarp í gær um breytingar á kosningalögum í því skyni að jafna aðstöðu blindra og sjónskerta í kjörklefanum.
Frumvarpið var rætt utan dagskrár á fundi allsherjarnefndar í gær. Að sögn Róberts Marshall, formanns nefndarinnar, var það ekki rætt frekar „Fulltrúi kjörstjórnar mun ekki fara með inn í kjörklefann, það nægir að hafa aðstoðarmann með sér," segir Ögmundur Jónasson, dóms- og mannréttindaráðherra . „Hann undirritar pappír, sem tryggir aðkomu kjörstjórnar að þessari ákvörðun."
Ögmundur segir að ekki hafi þótt ástæða til að renna skýrari lagastoð undir þetta og því hafi frumvarpið ekki komið til umræðu.