Landssamband hestamannafélaga, Félag hrossabænda og Félag tamningamanna hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem fordæmt er smygl á notuðum reiðtygjum og óhreinum reiðfatnaði til landsins.
„Samtökin líta þetta brot mjög alvarlegum augum í ljósi þess mikla tjóns sem smitandi hósti hefur valdið allri starfsemi í kringum íslenska hestinn á þessu ári, og ætti að vera öllum hestamönnum í fersku minni," segir m.a. í yfirlýsingunni. Eru allir hestamenn og aðrir ferðamenn hvattir til að standa vörð um heilbrigði íslenska hrossastofnsins og virða reglur um sóttvarnir þar að lútandi.
Fram kom í Morgunblaðinu í dag, að Tollgæslan tók í gær bíl til skoðunar sem fluttur var til landsins með flutningaskipi, en í honum voru notuð reiðtygi, beisli, skítug leðurstígvél og fleira.
Bannað er samkvæmt lögum að flytja notuð reiðtygi og reiðföt til landsins en með þeim geta hrossasjúkdómar borist til landsins. Grunur leikur á að hestapestin sem hefur valdið miklu tjóni í hestamennsku á þessu ári hafi borist til landsins með þessum hætti. M.a. varð að aflýsa hestamannamótum, tjón varð í ferðaþjónustu og hestar drápust.