Forstöðumaður Krossins sakaður um kynferðislega áreitni

Gunnar Þorsteinsson í Krossinum.
Gunnar Þorsteinsson í Krossinum. Ómar Óskarsson

Gunnar Þorsteinsson, forstöðumaður trúfélagsins Krossins, segir ásakanir, sem komið hafa fram á hendur honum um kynferðisbrot, algerlega tilhæfulausar. Fimm konur hafa sent bréf til stjórnar safnaðarins og fjölmiðils og saka Gunnar um kynferðislega áreitni og þöggun. Eru það m.a. tvær fyrrverandi mágkonur Gunnars sem bera hann sökum. 

Vefmiðillinn Pressan hefur fjallað um málið og birti fyrr í dag bréf frá nokkrum konum til stjórnar Krossins, þar á meðal tveimur fyrrverandi mágkonum Gunnars. Í bréfinu er Gunnar sakaður um kynferðislega áreitni og að reyna að þagga niður málið. Er þess krafist að stjórn Krossins bregðist við með hagsmuni þeirra og safnaðarins að leiðarljósi.

Að því er kemur fram á Pressunni segja konurnar, að samkvæmt lögum séu brotin fyrnd og forsendur fyrir kærum á hendur Gunnari því brostnar. Það sé hins vegar ljóst að afleiðingarnar fyrnist ekki en nokkrar kvennanna hafi verið undir lögaldri þegar á þeim var brotið.

„Þessar ásakanir eru gersamlega tilhæfulausar. Ég mun leita allra úrræða sem ég hef til að koma því á framfæri. Það er algerlega ólíðandi hvernig Pressan hefur höndlað þetta mál. Þó að söguburður sé kominn á pappír er hann bara söguburður,“ segir Gunnar í samtali við mbl.is en hann útilokar ekki að leita réttar síns fyrir dómstólum. Þannig hafi hann áður stefnt Pressunni fyrir umfjöllun sína um málið.

„Ég er náttúrulega mjög sleginn og miður mín. Þetta er þungbært að þurfa að standa í þessari stöðu því að ég fyrirlít svona framkomu gagnvart fólki,“ segir hann. Gunnar neitar alfarið að hafa reynt að þagga málið niður. Hann hafi hvatt fólk til að koma fram því að málið hafi verið á flökkusagnaformi um mánaðarskeið. Sögunum hafi verið dreift og beitt gegn honum og söfnuðinum.

„Ég tel að þetta sé af safnaðarpólitískum toga þannig að málið er í mörgum skilningi alveg grafalvarlegt,“ segir Gunnar.

Pressan

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert