Fulltrúar launafólks og atvinnurekenda á almennum og opinberum markaði hittust á samráðsfundi í dag þar sem forsendur fyrir samstarfi við gerð kjarasamninga voru ræddar.
Ákveðið var að hittast aftur eftir tvær vikur til ræða slíkt samstarf áfram en í millitíðinni verði reynt að afla gagna um þróun kaupmáttar, launa og ráðstöfunartekna, áhrif endurskoðaðrar þjóðhagsáætlunar, fjárlaga og fjárhagsáætlunar sveitarfélaga.
Markmið fundarins var að heyra viðhorf forystumanna samtaka á vinnumarkaði og ræða opinskátt hvaða forsendur geti verið fyrir slíku samstarfi.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, sagði að fundi loknum að fundurinn hafi verið upplýsandi um viðhorf og stöðu einstakra samtaka og vissulega hafi komið fram mismunandi áherslur. Mönnum hafi þó borið saman um að reynslan af framvindu stöðugleikasáttmálans sé með þeim hætti að ekki sé grundvöllur fyrir slíku samstarfi að óbreyttu, að því er fram kemur á vef Alþýðusambands Íslands.
Á fundinum var rætt um það hvort vilji væri til þess af hálfu aðila vinnumarkaðarins að taka ákveðið frumkvæði og forystu í mótun tillagna í efnahags-, atvinnu- og félagsmálum sem myndað gæti grundvöll að nýjum kjarasamningum. Ljóst sé að forsenda slíks samstarfs muni hvíla á gagnkvæmri virðingu fyrir því að samningsrétturinn sé hjá einstaka stéttarfélögum og samböndum þeirra, segir ennfremur á vef ASÍ.