Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningar Íslandsbanka, segir að það séu jákvæð tíðindi að verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands séu nánast í höfn. En skv. upplýsingum Hagstofunnar mælist ársverðbólgan nú 2,6%.
Þetta hafi síðast náðst um mitt ár 2004. „Miðað við síðustu 10 ár, sem er sirka saga verðbólgumarkmiðsins hjá Seðlabankanum, þá náðist það rétt í tvö ár af þessum 10,“ segir hann í samtali við mbl.is.
Ingólfur segir að það sé lítil innistæða fyrir verðbólgu í augnablikinu. „Krónan hefur verið að sækja í sig veðrið og þessir helstu liðir eru ekki að skapa neina verðbólgu í augnablikinu.“
Aðspurður segist Ingólfur reikna með því að það verði tiltölulega lág verðbólga á landinu út næsta ár, jafnvel lengur.
„Að okkar mati er lítil innistæða fyrir verðbólgu. Launahækkanir verða væntanlega tiltölulega hóflegar, gengi krónunnar ætti jafnvel að styrkjast eitthvað frekar, við erum með litla innflutta verðbólgu - þ.e. lítil verðbólga í viðskiptalöndunum - og húsnæðisverðið er ekki að hækka neitt að ráði. Þannig lagað er enginn eftirspurnarþrýstingur í hagkerfinu vegna þessa slaka sem er, og þá er við því að búast að við verðum rétt við eða undir verðbólgumarkmiðinu á þessum tíma,“ segir Ingólfur.
Aftur taki við tímabil sem hafi verið hér á landi í lok árs 2002 til miðs árs 2004, sem hafi verið stöðugleikatímabil að þessu leyti.
Hvað varðar óvissu þá segir Ingólfur að hún tengist gengismálum fyrst og fremst. „Ef við myndum sjá krónuna eitthvað veikjast í kjölfar afnáms gjaldeyrishafta þá myndi það hafa verðbólguþrýsting í för með sér. En við reiknum með því að þessi höft verði eitthvað áfram og krónan sé frekar að sækja í sig veðrið innandyra, hægt og rólega.“
Ingólfur metur það sem svo að ekki sé veruleg hætta á verðhjöðnun. Óvissan lúti frekar að því að verðbólgan komi aftur í gegnum gengið, sé litið til næstu missera.
„Í grófum dráttum þá er þetta í takt við það sem við höfum talið. Enda er þetta hefðbundinn endir á uppsveiflu í íslensku efnahagslífi. Þar sem við höfum yfirleitt fengið gengislækkanir, verðbólguskot og rýrnun kaupmáttar í kjölfar allra þensluskeiða hér,“ segir Ingólfur að lokum.