Helsta breytingin frá spánni í júní varðar fjárfestingu í stóriðju,“ segir í endurskoðaðri þjóðhagsspá Hagstofunnar. Miklu munar á hagvaxtarspánni nú og í júní og það hefur veruleg áhrif á allar forsendur fjárlagagerðar fyrir næsta ár. Mikið vantar upp á að tekjuáætlun frumvarpsins gangi eftir.
Í júní var spáð að hagvöxtur á næsta ári yrði 3,2%. Nú að landsframleiðslan vaxi um tæp 2%. Meginástæðan, þó ekki sú eina, er hvað dregist hefur að hefja framkvæmdir við álver í Helguvík. Í júníspánni var gengið út frá að fjárfestingar í fyrsta áfanga álvers í Helguvík kæmust á skrið á árinu 2011. Nú er gert ráð fyrir að þeim fjárfestingaráformum verði frestað til 2012.
Ólafur Darri Andrason, deildarstjóri hagdeildar ASÍ, segir að gert sé ráð fyrir mun minni aukningu fjárfestinga en í fyrri spá Hagstofunnar vegna þess að dregið hafi úr líkum á að ráðist verði í framkvæmdirnar í Helguvík á næsta ári. „Þessar framkvæmdir voru inni í fyrri spá Hagstofunnar í júní og er það langstærsta breytingin. Þar sem þær vonir hafa dofnað er gert ráð fyrir minni umsvifum í hagkerfinu.“
Gangi þetta eftir hefur það veruleg áhrif á forsendur fjárlagafrumvarpsins. „Það má gera ráð fyrir að þetta hafi áhrif á bæði tekju- og gjaldhlið frumvarpsins, sérstaklega á tekjuhliðina. Þar sem umsvifin eru minni dregur úr tekjum í hagkerfinu. Þingmenn þurfa því að horfast í augu við að tekjuspáin sem unnið hefur verið eftir er að breytast til hins verra,“ segir Ólafur Darri.
Varlega áætlað megi gera ráð fyrir að þar geti verið um 10 milljarða að ræða. „Menn standa frammi fyrir mjög erfiðri stöðu í ríkisfjármálunum. Ég geri ráð fyrir að þetta séu erfiðustu fjárlög í sögu lýðveldisins. Sá veruleiki sem menn þurfa að horfast í augu við núna gerir stöðuna enn snúnari,“ segir hann.
Halldór Árnason, hagfræðingur hjá SA, tekur undir að seinkun fjárfestinga í Helguvík virðist meginskýringin á að hagvaxtarhorfurnar eru mun dekkri nú en í júní. Komið hafi í ljós á umliðnum mánuðum að meira og minna öllum fjárfestingum í orku- og samgöngumálum hefur seinkað.
Fjárlaganefnd á eftir að fara yfir stöðu ríkisfjármálanna í ljósi þessarar nýju þjóðhagsspár með efnahags- og skattanefnd að sögn Oddnýjar G. Harðardóttur, formanns nefndarinnar. ,,Við sjáum náttúrlega að þetta hefur áhrif á tekjurnar en það leggst líka ýmislegt á sveif með okkur eins og [lægri] verðbólga og það eru að skapast aðstæður til að lækka vextina enn frekar.“ Fjárlaganefnd lítur til þess hvaða tekjur skila sér í ríkissjóð og hvað fer út, að sögn hennar. ,,Mér sýnist að niðurstaða yfirstandandi árs geti skilað okkur tæpum 6 milljörðum sem kemur þá á móti inn í kassann á greiðslugrunni,“ segir hún. ,,Þetta er dæmi sem við þurfum að skoða í samhengi. Við horfum ekki bara á hagvöxtinn heldur skoðum líka hvað kemur þarna á móti og bætir upp þennan skaða. Markmiðið er að halda okkar efnahagsáætlun, sem stefnir að frumjöfnuði á þessu ári. Við hvikum ekki frá því.“