Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa á Íslandi, segir að Skipulagsstofnun hafi ekki lagt til nein ný skilyrði varðandi álver á Bakka, umfram þau sem fyrirtækið hafi sjálft lagt fram. „Eins og við lesum niðurstöðuna þá erum við sátt við hana og sjáum engin ný skilyrði hvað álverið varðar,“ segir Tómas í samtali við mbl.is.
Meðal skilyrða sem fyrirtækið hafi lagt fram og komi fram í mati Skipulagsstofnar séu nákvæm vöktunaráætlun, endurheimtun votlendis og úttekt á fornminjum.
„Þarna eru tekin heildaráhrif fjögurra framkvæmda, og framkvæmdaaðilar hafa ekki dregið dul á það að um umtalsverð umhverfisáhrif er að ræða. En í matinu kemur líka fram jákvæð áhrif á samfélagið og efnahag,“ segir Tómas og bætir við að þetta séu þúsundir starfa á framkvæmdartíma. Það sé gott að þetta komi fram.
Aðspurður segir Tómas að það sé einnig gott að vera búinn að fá þessar niðurstöður í hendur.
Varðandi framhaldið segir hann að fyrirtækið sé í raun og veru ennþá í sömu stöðu og það hafi verið fyrir tveimur árum. Enn sé ekki búið að semja um orkuafhendingu eða magn.
Mat Skipulagsstofnunar sé hins vegar mikilvægur þáttur í heildarvinnunni og vegi mjög þungt. Það verði nú tekið til skoðunar og greint nákvæmlega. Menn munu einnig bera bækur sínar saman við hina framkvæmdaraðilana.
„Það eru mörg skref eftir ef af þessu verður,“ segir Tómas að lokum.
Samkvæmt upplýsingum frá umhverfisráðuneytinu er það nú leyfisveitenda, m.a. sveitarstjórna sem veita framkvæmdaleyfi, að kynna sér matsskýrslur og taka rökstudda afstöðu til álita Skipulagsstofnunar.
Umhverfisráðherra hafi ekki nein úrslitaáhrif á málið héðan í frá. Hvorki á álit Skipulagsstofnunar né leyfisveitingar og framkvæmdir, ákveði menn að fara gegn álit Skipulagsstofnunar og gefa út leyfi til framkvæmda.
Þetta skýrist meðal annars af því að álit Skipulagsstofnunar sé ekki kæranlegt til umhverfisráðherra.
Í lögum um mat á umhverfisáhrifum segi m.a.:
„Ákvörðun sveitarstjórnar um útgáfu framkvæmda- og byggingarleyfis samkvæmt skipulags- og byggingarlögum fyrir matsskyldar framkvæmdir er kæranleg til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála innan mánaðar frá því að ákvörðun sveitarstjórnar um útgáfu framkvæmdaleyfis liggur fyrir.“
Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála sé sjálfstætt stjórnvald og séu ákvarðanir hennar ekki kæranlegar til umhverfisráðherra.
Samkvæmt lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu sé það Orkustofnun sem veiti leyfi til rannsókna eða nýtingar á auðlindum. Áður en slík leyfi séu veitt skuli Orkustofnun leita umsagnar umhverfisráðuneytisins en sú umsögn er ekki bindandi.